föstudagur, apríl 28, 2006

Skinin*
Ég sit og er að glósa dönsku á föstudagskvöldi í fáránlega góðu skapi. Hverjum hefði dottið það í hug?
*Þessi fyrirsögn var tilraun mín til þess að beinþýða nafn hljómsveitarinnar The Shins sem ég er að hlusta á núna.
|

laugardagur, apríl 22, 2006

Síðasta helgin fyrir hamskiptin
 • Ég ætla ekki að vera artý og hipp og kúl núna, heldur gera nokkra punkta hérna um Ísland í dag.
 • Ég er að drekka rótsterkt kaffi sem ég treysti á sem gott spark í rassinn fyrir plön dagsins
 • Í dag ætla ég nefnilega að aðallega að læra.
 • Með smá hléum jú.
 • Ég hef verið lærdómsheft síðustu daga.
 • Mér finnst miklu miklu léttara að læra hluti þar sem ég þarf bara að lesa
 • Um leið og ég þarf að skrifa þá nenni ég ekki að læra þá
 • Þessvegna læri ég aldrei í stærðfræði og latínu
 • Ég er að hlusta á ótrúlega fallegt lag sem heitir Desert með Emelie Simon
 • Ég fæ samt alltaf smá kjánahroll þegar ég hlusta á tónlist á frönsku því mér finnst ég ekkert skilja og geta ekki sagst vera að læra frönsku því ég kann svo lítið í henni
 • Ég ætla í jógaeitthvað klukkan hálf eitt
 • Í kvöld er ég að fara að spila á Bar 11 m/ ekkium og Cynics. Hot stuff!
 • Það segja allir að Egilssaga sé skemmtileg. Ég er að reyna að hugsa jákvætt og byrja
 • Ég þrái að vera með krullur
 • Ég setti í mig Bjarkar-snúða í gær
 • Ég var að fá miðann minn á Roskilde Festival!
 • Ég er með þurrustu varir í Skandinavíu. Þori ekki að fullyrða um stærra landsvæði
 • Rosalega er fljótlegt að skrifa svona punktafærslu
 • Alltaf þegar ég skrifa orðið "maður" og þá ekki í merkingu karlmanns þá stroka ég það út og umorða setninguna
 • Ég er að hugsa um að útheimta sumargjöfina mína í dag
 • Ég setti mér reglur á fimmtudagskvöldinu að ég mætti ekki vera lengur en 30 min í tölvunni og yrði að læra latínu í 1 klt á dag. Ég braut báðar í gær.
 • Heyrðu nú er ég að hlusta á Le vieil amant með sömu stelpu. Frábært.
 • Ég hef kynnst ótrúlega mikið af góðri tónlist á myspace
 • Það angrar mig samt hvað allir eru komnir með myspace. Ég veit ekki afhverju.
 • Ég hef verið mjög skrýtin í skapinu síðustu daga. Það er leiðinlegt.
 • En núna segi ég latínupartí!
|

þriðjudagur, apríl 18, 2006

Freknur
Ég fór alein í sund í dag. Það var voðalega notalegt og ég fékk fullt af freknum í framan. Það var ánægjulegt því að mig langaði svo mikið í freknur. Ég hef reyndar ekki fengið slíkt prýði síðan ég var lítið barn. En mig langaði bara svo mikið í freknur og ákvað því bara að ég skyldi fá þær. Og það eitt var nóg. Ég fíla þá aðferð og ætla að stunda þetta frekar í framtíðinni, það er að segja að langa ofur mikið og ákveða því einfaldlega að sömu hlutir eigi að gerast.
Talandi um lítið barn. Bibbi fann mynd heima hjá sér af okkur þegar við vorum lítil börn, kannski tæplega 2 ára. Við sumsé bjuggum bæði á sama stað í Ameríku og vorum því látin leika saman meðan mömmurnar og pabbarnir töluðu saman á íslensku. Á þessari umræddu mynd leit ég út eins og óttasleginn, sveitt kanína í rauðum flauelsgalla. Bibbi bara voða rólegur eitthvað við hliðiná mér. Mér fannst þetta voðalega fyndið því að ég hef líka séð mynd af mér frá svipuðum aldri þar sem ég er með frábæran svip. Sem getur bara ekki annað en minnt mann á hænu. Ég hef alltaf viljað kunna að framkalla þennan hænusvip síðan en hefur það aldrei tekist.
Spurning hvort ég farin núna að reyna við óttaslegnu kanínuna líka.
|

fimmtudagur, apríl 13, 2006

Gæsalifur
Þegar ég var að keyra á útlandahraðbrautarparti Miklubrautar áðan, sönglandi með Death Cab for a Cutie glöð á brá, keyrði ég framhjá dáinni gæs (ég veit að það á að segja að dýr séu "dauð" en mér finnst það ljótt) . Ég fékk sting í hjartað. Ég hætti að söngla og greip fastar um stýrið.
Þarna var hún, gæsin sem ég hafði séð fyrr í dag og hafði sérstaklega tekið eftir því að þetta er ekki spennandi staður fyrir gæsir að hanga á. Þá hafði ég séð hana með annarri gæs. Gæsapar sem lá í grasinu sællegt á svip, þrátt fyrir yfirþyrmandi umferðarnið.
Mér var hugsað til hinnar gæsarinnar. Hvar sem hún væri nú hlyti hún að vera með sting í hjartanu, ennþá meiri en ég.
Ef hún henti sér þá ekki bara fyrir bíl um leið...
|

mánudagur, apríl 10, 2006

100 dagurinn
Jú þið lásuð rétt, í dag er hundraðasti dagur ársins. Til hamingju! Í tilefni þess ætla ég að fara í átak. Ekki megrun né lærdómsátak heldur bloggátak! Hildur auka bloggtíðni já!
Ég fann í dag gamlar dagbækur og fór að lesa. Á tímabili var ég ótrúlega dugleg að skrifa í þær og á sama tímabili bloggaði ég oft í viku. Núna skrifa ég ekki lengur í dagbók og blogga ég á tíðni langt undir meðalaldri engisprettna. Og það er ekki kúl. Ég ætla nú að lofa ykkur að minnsta kosti þremur bloggum í viku sem eru þó stutt og hnitmiðuð. Vá, mér líður eins og í einhverri kosningarbaráttu hérna. En þetta er satt og þetta fáið þið. Í staðinn gefið þið mér komment eða lesið bara vel og vandlega. Próf úr bloggunum verða haldin mánaðarlega og sá sem svarar flestum spurningum rétt fær titilinn "Hildarspekúlant mánaðarins" og litla dós af pepsi max. Svo það er um að gera að fylgjast með.
Annars var dagurinn í dag algjör ónytjungadagur. Ég fékk ekki af mér að gera neitt nema að horfa á hálfa bíómynd, keyra með einn reikning og sitja lítinn fund. Og hósta ógeðslega mikið. Ég er ekki hissa ef innyflin mín finnast á víð og dreif um húsið.
Arnar Már er farinn til útlanda. Í tvær heilar vikur. Í rokkstjörnuleik. Hann er sumsé að túra Bretland með fleiri rokkhundum og spila úr sér lífið. Ég vona samt að hann eigi eftir smá lífsneista þegar hann kemur heim þótt mér þyki það ólíklegt eftir að hafa spilað svona 30 sinnum á þessum tíma. En ég kann samt eitthvað í skyndihjálp.
En já, verið á varðbergi, annað blogg áður en þið vitið að!
|

laugardagur, apríl 01, 2006

Hands away
Á þessu ágætis laugardagskvöldi finn ég mér loksins tíma til þess að blogga bloggið sem ég ætlaði að gera fyrir viku. Því fyrir viku gerðist svo mikið.
Á föstudaginn 24.mars tók rökkurró þátt í Músíktilraunum. Það var aldeilis gaman. Ég varð samt svolítið stressuð þegar ég kom upp á svið og talaði ekki neitt. Ég var búin að ákveða að kynna lögin og vera skemmtileg en það gjörsamlega blokkeraðist og ég rétt náði að stama útúr mér þökkum eftir flutninginn. Annars gekk okkur mjög vel og vorum sátt með okkar. Sama dag voru kosningar og ég fékk talhólfsskilaboð á meðan ég var á Músíktilraunum frá Inspector, sem stóð uppá sviði á kosningavökunni og sagði mér að ég væri orðin Scriba. Og brjáluð fagnaðarlæti frá fullum sal af fólki. Það var mjög skemmtilegt. Reyndar var búið að leka úrslitunum í mig áður en ég hlustaði á skilaboðin. Engu að síður mjög ferskt.
Á laugardeginum spiluðu rökkurró svo á mjög skemmtilegum tónleikum á Kaffi Hljómalind sem ég prómóteraði í síðasta bloggi. Það var mjög gott andrúmsloft þarna inni og mér fannst þessir tónleikar æði. Það kom meiraðsegja mynd af okkur þaðan í Miðbæjarblaðið sem kom með Mogganum á föstudaginn. Tíhí. Annars mæli ég með því að allir tékki á Rivulets líka. Mjög indælir náungar og fín tónlist.
Þessi vika einkenndist af einhverskonar spennufalli og almennri leti sem var ekki mjög sniðugt því það var próf upp á næstum því hvern dag. Og útkoman úr þeim verður sennilega í samræmi við þetta.
Í gær var Morfís haldið í Háskólabíói. Viðureignin var mjög spennandi fyrirfram vegna rígsins sem hafði myndast milli MR og mh. Það kom bersýnilega í ljós að 10 olíutunnur og olíubornir hálfnaktir trymblar skiluðu sínu því MR vann sigur í mjög spennandi og jafnri viðureign. MH fengu þó ræðumann Íslands sem átti titilinn fyllilega skilið.
Og í gær voru líka úrslitin í Músíktilraunum sem ég fór þó ekki á vegna Morfíss. En ég verð að segja að ég varð mjög vonsvikin með úrslitin. Allavega sigursveitina. Að sjálfsögðu eru alltaf skiptar skoðanir um sigurhljómsveitina og ófáir skandalar hafa einkennt þessa keppni gegnum árin en í þetta skipti varð ég ótrúlega svekkt með valið. Það voru svo margar aðrar sem áttu meira skilið en þeir. Ég hef alltaf tamið mér það að gefa hlutunum séns og dæma ekki of harkalega en í þetta skiptið breytir það engu um álit mitt. Þessvegna vona ég bara að dómnefndin hafi séð eitthvað sem ég sá ekki og sigursveitin eigi eftir að sanna sig.
Akkúrat núna er ég samt að manna mig upp í að nenna á spennandi tónleika sem eru í kvöld. Mig langar frekar að gera ekkert. Slæmt, ég veit. Letin eitthvað að ná hámarki. Get ekki sagt að ég hafi gert neitt í allan dag. Jú, ég fór út að labba með hundinn áðan. Og fraus illilega.
Mér er ennþá kalt. Ég ætla að finna einhvern sem vill hita mér.
|