föstudagur, desember 30, 2005

Songbird
Á þessari stundu eru um það bil einn og hálfur dagur eftir af ósjálfstæði mínu. Það er ekkert hægt að nýta sér það frekar. Og ekki eins og það skipti máli heldur. Ég held að það breytist ekkert við sjálfræði nema það að nú get ég ekki vælt í pabba og mömmu og sagt að þau eigi að endurgreiða mér sokka sem ég kaupi því að þeir séu nauðsynjavörur og þar sem þau eigi að halda mér uppi til 18 ára aldurs væri það ljótt af þeim að láta mig blasa sokkalausa við erfiðu lífi unglingsins.
Danmörk var mjög skemmtileg. Aldrei hef ég upplifað eins róleg jól og langt frá þeim hefðum sem hafa áður ríkt. Ég saknaði hefðanna ekki neitt. Enda er ég ekki mikið fyrir að hafa hlutina alltaf í sama farinu. Þvert á móti. Ég kaupi mér mat sem ég hef aldrei smakkað þótt hinn maturinn sem ég hef smakkað sé bestur í heimi bara til þess að athuga hvort þessi sé ekki kannski betri.
Ég smakkaði þurrkaðan hafragraut í flögum í Danmörku. Hann var ekki sem verstur. Ég keypti líka falleg föt í Danmörku. Og ég fór í tívolí án þess að fara í eitt einasta tæki, sjálfur tækjabrjálæðingurinn! Ég svaf í Danmörku. Ég hjólaði mikið, það var hressandi. Ég klessti á bíl á hjóli. Ég keypti líka geisladisk með Evu Cassidy sem ég er ástfangin af og er að hlusta á.
Ég lærði frábært orðtak í dag. "Já, hún Ásrún er algjör þraut í þarmi."
Þýðing: "Oh yes, Asrun is a total pain in the ass."
En þeim sem ég hef ekki boðið enn í afmælið mitt og telja sér misboðið, vinsamlegast hringið reiðir í mig og ég skal blíðka ykkur.
|

sunnudagur, desember 18, 2005

Góss
Hugur minn hafði vart undan á prófatíðinni en núna þegar ég sest niður, á friðartímum er ég blönk.
Eirðarleysið hellist yfir þegar þú þarft ekki lengur að gera milljón hluti á mínútu. Þú reynir að fylla inní skarðið en þreytan lætur oft til sín taka svo úr verður voða lítið, úr girnilegum frítíma.
Ég fer af þessu landi eftir 4 daga. Það er tilhlökkunarefni þótt mér þyki leitt að missa af hinu og þessu. Ég hef aldrei verið erlendis yfir jól en mér finnst það kærkomin breyting. Ég fæ þó að fagna nýári og sjálfræði heima og verður án efa kátt á hjalla þá.
Plön fyrir næsta ár eru byrjuð að myndast í hausnum mínum og þau eru kræsileg. Ég ætla mér margt og mikið, miserfitt og misskemmtilegt. Ég blegh...ætla ekki meira að tala um það.
Ég var að taka jólamyndir af mér áðan þar sem ég var svo jólalega búin þegar ég var að fara á tónleika. Ég ætla að leyfa ykkur að sjá....

Image hosted by Photobucket.com

Tótallí artí án flass ójé

Image hosted by Photobucket.com

Ég3 og jólaséría og jólaföt

Herbergið mitt er ekki til þess að hrópa húrra fyrir. Ég vaknaði með eitthvað rautt á maganum og ég er viss um að það sé rykmaursbit. Ég held líka að kransaæðarnar mínar muni stífla af ryki en þær gætu jú líka stíflast af jólaöli + appelsíni því það fær að renna óbeislað niður þessa daga. Ég lifi í drepandi umhverfi.

Um daginn þá ætlaði ég að hringja og ég var slá inn gsmsíma númer annars hugar og þegar ég leit á símann blasti við mér "666". Þar sem leið mín lá út eftir 2 mínútur var ég viss um að bíll myndi keyra á mig. Eða kráka myndi stinga mig í hausinn. Eða ég myndi renna og detta og hálsbrotna. En það gerðist ekki. Og ég náði strætó. Ég er samt lítið hjátrúarfull. Einusinni var ég alltaf með naglalakk í prófum en ekki útaf því að mér gekk betur heldur því að þá gladdist ég alltaf þegar ég sá nögl. Las bók- sá bleika nögl, ahhhh. Svona er létt að gleðja mig stundum. En ég naglalakkaði mig reyndar ekkert fyrir þessi próf. Ég er kannski að eldast.

En ég er hætt búin farin og....

|

sunnudagur, desember 11, 2005

Konfekt
Síðustu daga hef ég tekið upp á því að stunda stressköst. Þá iða ég og hugsa eins og fimm ára og það eina sem mér finnst laga það er að fara í tölvuna og borða súkkulaði. Það eru klárlega ekki bestu lausnir í heimi. Þær kenna mér allavega ekki námsefni fyrir próf....
Ég held að dauðdagi minn verði af latnesku kyni.
|

þriðjudagur, desember 06, 2005

Pantalon

Hrakfarauppfærsla: Í gær datt pakki af klósettpappír ofan á hausinn á mér og beyglaði gleraugun mín.

Afleiðingar: Nú sit ég með þá flugu í hausnum að ég kunni alla frönsku í heiminum. Allavega nóg til þess að læra ekki neitt.

En ég er að láta franskan tónlistarmann sjá um að veita mér innblástur núna. Vona að hann sé laus klukkan 9 á morgun.
|

fimmtudagur, desember 01, 2005

Brot
Í gegnum tíðina hef ég gert mikið af því að skrifa texta um hitt og þetta. Sem bara koma. Ég á það líka til að gleyma þeim jafn fljótt og þeir koma en ég reyni að skrifa alltaf niður. Það var mér þó til mikillar undrunar í gær þegar ég gróf upp gamalt hefti sem ég var búin að gleyma. Þar hafði ég krotað inn nokkra texta. Ég kannaðist við flesta, en einn þeirra man ég ekkert eftir að hafa skrifað. Mér finnst hann fallegur en það merkilegasta er að hann er nauðalíkur texta sem er í lagi sem hefur verið í uppáhaldi hjá mér uppá síðkastið. Svona ef honum væri hent yfir á ensku. En þetta lag heyrði ég fyrst í sumar en textinn er frá síðasta vetri.
Ég fékk svona "yfirnáttúrulega" tilfinningu.
Þetta er örugglega ekkert merkilegt. Þið hafið pottþétt öll lent í þessu þrisvar.
|