föstudagur, nóvember 25, 2005

Dagurinn á undan þessum
Næstu orð ætlið þið að hverfa nokkra klukkutíma aftur í tímann. Ímyndið ykkur að nú sér gærdagurinn.
Ég byrjaði daginn á ferskan hátt. Klukkan 6:41 sat ég í eldhúsinu, búin að velgja mér bananabrauð og hella appelsínusafa í glas. Ekki tókst það betur en svo að ég hellti örlitlum safa á borðið. Ég ætlaði að bæta um betur og seildist eftir tissjúbréfi. Í þann mund tókst mér að flækja náttbolinn minn í glasið og áður en ég vissi af var ég búin að hella öllu glasinu yfir mig...

...á svona sirka þennan stað
og á stólinn, borðið og gólfið. Ég bældi niður ósjálfrátt kvein því aðrir fjölskyldumeðlimir voru ekki vaknaðir. Þurkaði safann eins og ég gat og henti náttfötunum mínum í baðkarið.
Þetta vakti mig þó rækilega því eins og allir vita vekur fátt betur en að fá appelsínusafa inn að nærbuxum. Þetta var þó kostur að því leyti að ég var að fara í líffræðipróf í fyrsta tíma og var því afar hress á lífrænan hátt.
Þennan dag varð systir mín líka árinu eldri. Gott afrek hjá henni og ég stefni í sömu átt.
Þennan dag mörkuðust önnur falleg tímamót líka. Ég get núna sagst hafa átt mjög skemmtilegt hálft ár að baki, í tygjum við aðra manneskju.

Image hosted by Photobucket.com

Þessa manneskju.

Þetta hálfa ár hefur verið viðburðaríkara en mörg önnur hálf ár og með þeim skemmtilegari sem ég get munað eftir. Við ákváðum að fara á Hereford steikhús í tilefni dagsins og var það hin bragðbesta skemmtun. Við komumst af því hvað það er ótrúlega einfalt að vera fyndinn þegar maður er ölvaður dani í bissneskallaferð á Íslandi. Og við fengum súkkulaðiköku sem var sennilega besta súkkulaðikaka á hvern fersentimetra sem ég hef smakkað. Það er þessi stefna að reyna að hafa eftirrétti eins litla og dýra og hægt er en þó þess virði. Þetta var indælt kvöld.
Hoppum núna aftur inn í nútímann.
Verið góð, það er svo gaman. Ég ætla að fara og vera góð núna.
|

laugardagur, nóvember 19, 2005

Laugardagspartí
Það þykir voða inn að eiga afmæli þessa dagana. Að minnsta kosti eru allir að því. Og fólki þykir þá um leið voða gaman að halda partí. Ég hef svosem voða lítið á móti því. Nema það að þá þarf maður alltaf að vera að kaupa pakka. Það er gaman að gefa en ég þoli ekki hvað ég á litla peninga. Mínir eru smærri en venjulegir peningar. En þeir duga svosem.
Ég var að fá í hendurnar dýrgrip mikinn. Faðir minn kom heim frá Bretlandseyjum í nótt og hafði góða gripi í farteskinu. Þar á meðal var geisladiskur með Fiona Apple - Extraordinary Machine. Ég er búin að þrá hann lengi og nú fékk ég hann fallegan, með mynd af spínati. Eða kannski eru þetta baunir. Jú örugglega. Svo fékk ég líka tímarit. Góði pabbi.
Mér þótti afar fyndið að éta vínabrauð í morgun og hlusta á ömmu mína tjá sig um Sylvíu Nótt og Nylon. Henni fannst semsagt Sylvía Nótt ganga yfir strikið þegar hún sagðist vera á túr á Edduverðlaununum. Og afi sagði að hann hefði lesið að hún væri að fara að flytja til Páls Óskars. Ég reyndi að gefa þeim hintið að hún héti í alvöru bara Ágústa og að hún reyndi bara að gera það sem hneykslaði fólk en amma hélt áfram að tala um þetta strik. Sniðugt svona fólk.
Svo hvatti amma mig til að fara á Nylon tónleika "því þær eru svo huggulegar og koma vel fyrir". Ég sagðist ætla að hugsa málið.
Annars fór ég á skemmtilega tónleika í Norðurkjallaranum í gær. Ég sá nokkur bönd þar á meðal Mammút og I Adapt. Það var næstum því búið að líða yfir mig svo ég hljóp útí sjoppu og keypti mér mat og stóð því í lappirnar. Það var þess virði, það var svo gaman að horfa á undrunar svipinn á fólkinu þegar I Adapt brjálæðið byrjaði. Það voru líka kostulegar stelpurnar fyrir aftan mig. Þær voru að missa sig yfir því hvað þetta væri költað.

Spínat eða baunir?
|

sunnudagur, nóvember 13, 2005

Hlustið, og þér munuð...
heyra í Audrey, sænskum stelpum, flytja ykkur fallegt lag.

Þessar stúlkur vita að það er í tónunum sem fegurðin gildir, eða þúst sumar.

Sunnudagur, hvað annað get ég sagt?

|

miðvikudagur, nóvember 09, 2005

SOYABEIBÍ
Hér sit ég og borða köku og SOYAís. Það er ansi ljúffengt og upplífgandi á myrku skammdegi þessa miðvikudags.
Undrun fólks virðist ótakmörkuð. Ég fæ oft uppköll út á götum
-Hey þarna er hún þarna SOYAstelpan!
Ég læt þetta sem vind um eyru þjóta og hjúfra mig inní lífrænt ræktuðu úlpuna mína.
Ég var spurð í gær.
-Er þetta SOYAvatn?
Ég: Já, ég drekk bara sigtað SOYAvatn
-Þú ert alltaf með ekkert í nesti. Eða svona, brauð sem er gert úr engu, köku sem er samt ekki kaka, SOYAjógúrt sem er ekkert jógúrt.
Jújú. En þú ert það sem þú borðar. Og þessvegna lifi ég róleg á meðan þið breytist í beljur.
Ég mun verða SOYAKONAN !
Annars hef ég bara gaman að þessu. Ég er með svona semimjólkuróþol
ef þið vissuð ekki. Það er alveg að venjast, enda svindla ég svona næstum
á hverjum degi.
En lífið er ekkert án svindls.
Ég var að deyja í lungunum í gær.
Ég þorði ekki að hreyfa mig hratt því að þá þyrfti ég að anda hraðar og nota lungun meira.
Örugglega bara útaf því að ég heyrði um daginn um strák,
lungun hans féllu saman.
Þetta er samt aftur vont núna.
Ah, já. Lungun mín eru bara örugglega að breytast í túrbóloftmegaapparöt.
Því ég er að verða SOYAKONAN muniði.
|

þriðjudagur, nóvember 01, 2005

Pindsvin
Þetta er nú meiri vitleysan. Bloggið mitt er næstum því farið að ganga út á sögur af mér að gera skemmtilega misheppnaða hluti. En ég bara verð að deila þessu atviki með ykkur. Sérstaklega því að ég hló svo mikið af því sjálf.

Ég var sumé í gær á leið upp efri stigann heima með bollasúpu í hönd. Ég var á hraðferð, eins og svo oft áður að tölvunni þegar mér tókst að krækja loðna inniskónum mínum í eitt þrepið, detta UPP stigann, reka bollasúpuhendina mína í vegginn og sulla allri súpunni á vegginn, tröppurnar og yfir sjálfa mig. Ég missti bollann en hann var sallarólegur, og fór ekki einusinni á hvolf! En mér leið bara eitthvað svo ámátlega heimskulega með súpu á mér allri, plokkandi pasta af veggnum og með illt í hnjánum- svo ég gat ekki annað en skellt uppúr.

Ójá

Sólbjartur nálgast, ég er liðsstjóri 4.B II, en ég heimta að við komumst áfram, því þá fæ ég að tala í næstu umferð. Fyrsta keppnin okkar er á móti 6.YIII á fimmtudaginn nk., umræðuefnið er "PINNAHÆLAR" og ég vil sjá alla, ALLA mæta. Áfram veeeð!
|