miðvikudagur, september 28, 2005

...her name is Cameron and she's my hero
Ég sit og er að blogga um leið og ég er að skrifa ritgerð. Sorglega ritgerð sem er full af staðreyndum um lífið. Ljúfsár melódía, þið skiljið. Ritgerðin mín er samt vonandi ekki sorgleg, bara um sorg. Það er svosem ágætis efni þegar maður fer að munda lyklaborðið. Þess á milli sem ég drita niður orðum og skipti um lag, tek ég syrpur í að hraðlesa með puttunum. Já, svona sillí heimaæfing fyrir hraðlestrarskólann sem ég var að byrja í á mánudaginn. Hann er samt sniðugur og ég ætla að fara að lesa mega hratt þannig að öhh...ég geti feisað alla þá sem lesa ekki megahratt! Hjúff!
Ég er næstum því búin að ákveða að byrja í leik. Hann er svona "égætlaekkiaðborðamjólkogmjólkurvörur". En hann er samt ekki alveg ekta, því að ég ætla ekki algjörlega að sneyða fram hjá mat sem er bara með mjólkurprótínum, eða undarennudufti í. Bara svona þetta helsta. Soya er svona stikkið mitt í þessum leik. Ég prófaði sko ekta svona leik í viku, og mér leið vel, en hann var aðeins og erfiður þannig að ég ætla að fara milliveginn og líða næstum alltaf vel í maganum. Og kannski aðeins minna stirð. Já, mér var sagt að einhver efni í mjólkinni gæti sest í vöðvana svo maður yrði stirðari. Sem er fyndið. ÉG er fyndin. Ég er í alvörunni eitthvað þvílíkt keis hjá öllum sjúkraþjálfurum, hnykkjurum og nuddurum sem hafa snert mig. Eitthvað óeðlilega stirð. En það er bara....rokk!
En, ég ætla að halda áfram.
Og já, ég var klukkuð sem þýðir, næst þegar ég kemst í að blogga verða það "confessions of a hilarious mind"
|

fimmtudagur, september 15, 2005

Hildur versnandi fer
Á þessari stundu líður mér mun betur en mér er búið að líða síðustu daga. Út af einni ástæðu. Stórri, asnalegri og óskiljanlegri ástæðu. Mér er ekki kalt. Ég veit ekki hvað er að gerast en þetta nýja ástand kemur flatt upp á mig.
Mér er nefnilega búið að vera óstjórnlega kalt síðustu daga. Alveg hrikalega, viðurstyggilega, hoppandi kalt. Ekki myndi ég þó halda að ég væri kaldlynd, köld á manninn eða jafnvel köld, en ég viðurkenni að kaldhæðin á ég til að vera. Köldu augnarráðin mín koma alveg óvart. Ég vil vel. Það sem ergir mig meira en kuldinn sjálfur, er að ég finn ekki rótina af þessu vandamáli mínu. Haustið er jú að koma, og felur í för með sérkaldara loftslag, en það er ekki eins og róttækar breytingar hafi átt sér stað enn. Og ég geng um dúðuð með vetlinga og trefil, að minnsta kosti, en ekki virðist það hjálpa. Mér finnst hjákátleg sú staðreynd að samanborið við Arnar er ég alltaf með kaldari hendur, innan í vettlingum, en hann berhentur. Í fjósinu, í skólanum, skelf ég tímunum saman, þangað til hitabeltisloftslag myndast- sem gerist þegar gluggar hafa verið lokaðir lengi. Þá get ég andað rólega, í fína svitaloftinu.
Glugginn í herberginu mínu er líka bilaður sem gerir það að verkum að ekki er hægt að loka honum. Það gerir það því mun erfiðara að vakna á morgnanna, þegar ég þarf að berjast við kalt herbergi í þokkabót.
Hvað er til ráðs að taka?
Það eina sem mig dreymir um þessa dagana eru ullarnærföt. Hlý, mjúk og vinaleg ullarnærföt. Þegar ég eignast þau mun ég verða hlýrri manneskja.
Vonum að það dragist ekki á langinn.
Þakka lesninguna og megi hitinn vera með oss.
|

föstudagur, september 09, 2005

Norðanátt
Undir smásjá hins óþekkta afls,
sit ég og stari.
Stingur í augun,
sýnin sem endurspeglast
í tærum augum þínum.
-
Hvarvetna blása vindar milli laga,
nísta milli skjálfandi beina.
Þú sem ættir að verja mig,
gegn heimsins böli.
Situr kyrr.
-
Tilfinningar mínar brotna,
hristast og hrærast,
þar til brotin raðast saman á ný.
En sum eru horfin
og önnur bætast við.
-
Ef ég fengi að skilja í einn dag.
Þetta ljóð varð til á um það bil 3 mínútum. Það á sér enga skírskotun í raunveruleika minn þessa daga. Þetta er dæmi um skrif sem mér finnst gaman að stunda. Raða orðum sem mér finnst hljóma vel saman og gætu myndað heild, þótt að tilfinningarnar séu jafn mikill skáldskapur og orðin sjálf. Þetta er eimmitt ekki eitthvað sem ég ætti að viðurkenna. Ég á að halda því fram, eins og sannt skáld að ljóðin mín séu djúp, tilfinninganæm og þýðingarmikil. Þau eru það kannski, en það eru ekki alltaf tilfinningarnar mínar.
Það er gott að setja sig í spor annarra.
|

laugardagur, september 03, 2005

Sjáðu, hafið er rispað...
Ég sit og geri ekki neitt. Ég er að hlusta á kántrí sem er eitthvað sem ég geri ekki að staðaldri. Nýverið enduruppgötvaði ég hinsvegar undraheim bókasafnsins og er nú tíður gestur þar og kem ég sjaldan tómhent heim. Hvort sem það eru geisladiskar eða bækur, eitthvað sem ég veit eitthvað um, eða ekki, þá er þetta voða sniðugt. Síðast tók ég kántrí, óperu, rokk og matreiðslubók.
Sólin sem ég ætlaði að sleikja er farin, eða nei rétt í þessu kom hún aftur. Þá kannski fer ég í sund. Annars er ég eitthvað eirðarlaus. Ég líka blogga eiginlega bara þegar ég er eirðarlaus. Einhver árátta til þess að tjá sig þegar maður er skrýtinn.
Ég er í fjósinu í skólanum. Virðingarvert. En ég er að læra latínu. Það bætir þetta upp. Máló er gúddsjitt. Svo er ég geðveikt dugleg að búa til nesti. Salat og svona. Það er svo gaman að borða gott nesti.
Ég ætti að læra núna, eða hreyfa mig en ég held að ég endi með að fá mér bara súkkulaði og hlusta á eitthvað fallegt. Ef maður gerir ekki eitthvað fyrripart frídags, þá gerir maður ekkert hinn partinn heldur. Það er lögmál sem ég var að uppgötva og tekur mið af öllum helgum mínum hingað til og á sennilega einungis við um mig.
Hlustið á, og þér munið gleðjast: Triumphant- Royksopp
|