föstudagur, ágúst 26, 2005

Um hreyfingu hins holdlega hluta Hildar
Nú er sögumaður, eins og flestir ættu að kannast við, með brot í rist. Að vissu leyti er það mikil breyting fyrir hina oftar en ekki íþróttahneigðu stúlku enda má hún ekki stunda hlaup svo vikum skiptir, á meðan bágtið grær. Hefur hún þá brugðið á það ráð að iðka áður óþekkta og fjölbreytta hreyfingu til tilbrigða. Það hefur reynst ágætis skemmtun og krydd í hina nýtilkomnu skóladaga. Í heilsubótarhreyfingu hennar þessa dagana kennir ýmissa grasa.
Sundhöll Reykjavíkur sækir hún reglulega. Það er skemmtilegur samastaður gamalla kempna og ungra barna og óléttra kvenna. Og einnar stúlku sem má ekki synda, heldur stundar þar hlaup í vatni eins og óð væri. Uppsker hún ætíð mikla athygli en hefur blessunarlega ekki ennþá þurft að svala forvitni fróðleiksfúsra gesta laugarinnar í orðum. Það er ágætt. Hún vill nefnilega frekar fá að líða um í vatninu annars hugar með gulan kút um sig miðja, ótrufluð. Pottarnir eru hinsvegar ómissandi eftir buslið og þar er aragrúi pottadýra sem eru oftar en ekki að ræða þjóðfélagsmál af miklum hita. Situr stúlkan þó oftast að er virðist hálfsofandi en flögrar milli samræðna eins og þessar litlu gulröndóttu skepnur, án þess að nokkur veiti því eftirtekt. Gufan er stundum tekin enda eftir að hún rakst á rokkara þar einn daginn hefur hún séð að vilji maður verða frægur verði maður að stunda partí og gufu, eins og hana Sigrúnu heillina þyrsti ávallt í. Svo má ekki gleyma húsakynnum laugarinnar. Þegar hún lagði stund á skólasund þar á bæ var álit hennar ekki á staðnum ekki upp á marga fiska. En eftir að árin tóku að hlaðast upp hefur aðdáun hennar á þessum stað aukist. Hvílík snilld. Engin sundlaug státar af jafnskemmtilegum búningsklefum í orðsins fyllstu merkingu. Einkaherbergi með kolli, spegli og skáp. Sjáið og sannfærist. Svo eru sundlaugarverðirnir sem hreyttu á mann leiðindunum í skólasundinu, líka svona indælar konur í alvörunni þegar maður er orðin eldri. Sjáið hvað tímarnir breytast- og hve óréttlætið er mikið!
Svo hefur stúlkan verið að stunda stofnun sem kennir sig við heimsklassa en heldur í gamlar nafngiftir. Laugar. Í gær sótti hún sem dæmi jóga tíma þar. Stúlkan kímdi milli þess sem hún andaði hreinsunaröndun, teygði sig og beygði yfir því hve heiftarlega stirð hún væri. Það er hreint út sagt yfirnáttúrulegur stirðleiki sem hrjáir hana, en hún lætur það ekki á sig fá, jóga er hollt. Henni varð þó ekki um sel þegar þrjár manneskjur voru farnar að hrjóta eftir um það bil fimm mínútna hvíldarlotu í lokinn. Hvernig er hægt að sofna sveittur á gólfi með aðeins eitt teppi yfir sér eftir örfáar mínútur, spurði hún sjálfa sig. Það gæti hún ekki sama hversu liðug eða hugahreinsuð hún væri. Ef það er þá það sem það krefst. En svo potar hún í nokkur tæki ef þannig liggur á henni eða rúllar á einhverjum öðrum tækjum og horfir á klessta ameríska þætti á meðan.
Svo eru hjólreiðarnar farnar að verða vinsælar aftur. Verst hve hjól stúlkunnar er að hruni komið. En stór heyrnatól og iPod bjarga því. Hún þarf bara að hjóla á hælnum.
En núna, akkúrat núna, finnst stúlkunni ekki lengur gaman að segja ykkur frá hreyfingu sinni.
Hún ætlar að hætta því.
Hún bloggar kannski aftur í bráð.
|

miðvikudagur, ágúst 17, 2005

Æ þússt..
Það er ekki alltaf voðalega gaman klukkan þrjú á miðvikudögum. Eins og núna. Dagurinn sem átti að vera tekinn með dugnaði er ekki á leiðinni að verða eins og óskað var. Ég byrjaði geðveikt fersk og hrein og fór í World Class í einkaþjálfun. Verið að búa til prógram handa litlu sjúku Hildi með brotnu ristina. Hjólaði svo heim og dó. Það er að segja öll myndarlegheit dóu. Ég svona náði að fá mér eitthvað að borða og fá svo illt í magan þannig að ég entist í lítið meira. Lá upp í sófa, horfði á Jamie Oliver elda fallegan mat sem mig langaði ekkert í. Fór í tölvunna og las texta. Ætlaði svo að fá mér kaffi en nennti á engann máta að búa það til. Ég er hvortsemer að fara í afmæli klukkan 4. Þau hljóta að gefa mér kaffidropa. Og köku. Maður á alltaf að fá sér köku þegar manni er illt í maganum.
Ég hef aldrei bloggað í jafn asnalegri stellingu.
Ég ætlaði líka að fara og versla mér falleg föt í dag, taka til í herberginu mínu og semja þúsund lög. Það gerðist ekki.
Ég er að fara í kveðjupartí til SIGRÚNAR HLÍNAR partídýrs í kvöld. Mér finnst samt svo erfitt að kalla svona getttúgeðer partí því að mér finnst ekkert gleðilegt að stúlkan sé að fara. Yfirgefa okkur vinkonur sínar á fína góða Íslandi sem hefur reynst henni hingaðtil svo vel. Ungverjaland pungverjaland. Svo þegar hún kemur heim eftir langt ár þá ætla ég ekki að svara henni þegar hún hreytir á mann ungverskri kveðju.

-Þessi lög hafa fangað huga minn föstum tökum síðustu daga
  • I was just thinking- Teitur (hann er líka færeyskur!)
  • Sommersault- Zero 7 (þessi texti er yndi)
  • Home - Zero 7 (Zero 7 er að stimpla sig rækilega inn)
  • Neighborhood #2(Laika)- The Arcade Fire (ég ætlaði þúst bara að gera sviga við fyrsta lagið...)

Ég mæli sérstaklega með þeim, vilji fólk finna til vellíðunar. Svo mæli ég líka með ógeðslega mikið af vínberjum. Og Pepsí max.

|

þriðjudagur, ágúst 09, 2005

Póst-a-blogg
Í dag á ég eftir 3 vinnudaga í minni ágætu vinnu. Allt í kringum mig eru raddir allan daginn að kvarta undan vinnunni sinni en ég þegi. Mér finnst vinnan mín bara fínt geim. Ég græt það þó ekki að hætta brátt enda fínt að fá að sofa smá og veltast úti í grasinu. Þó vakandi.
Í póstinum er allskonar fólk. Með saklausu augnarráði læt ég sem ég sé að einbeita mér að vinnunni en fæstir vita hvernig ég kryfja samstarfsmennina eins og tilraunarottur í huganum. En líffærin heilla ekki, það eru persónurnar.
-Eins og konan sem hlær ógeðslega mikið og hátt eins og hún sé að reyna við mann.
-Eða strákurinn sem stundar grimmt að troða lögum inná heilann á manni, lögum sem maður hélt að maður væri sem betur fer búinn að gleyma.
-Eða konan sem kemur daglega og segir alltaf sama hlutinn og hlær alltaf af því. Og lítur út eins og mús.
-Eða harði rokkarinn sem er alltaf að túra villt í útlöndum en kom samt í Michael Jackson bol í dag.
-Eða konan sem talar eins og sírena og öskrar voðalega mikið milli deilda í þokkabót.
-Eða maðurinn sem lyktar....eins og eins og....vondur matur.
-Eða konan sem á óheppilegasta barn sem ég hef séð. Það kallast óheppilegt að vera feitt,ófrítt og það pirrandi að ég vorkenndi því meira en að pirrast(æ, þetta er ljótur sannleiki)
-Eða gaurinn sem ég er alltaf að rekast niðrí bæ, í hressara lagi.
-Eða stelpan sem á heiðurinn af ömurlegustu hringingu sem ég hef á ævinni heyrt, einsog kjarnorkusprengjusalsa.
-Eða strákurinn sem er svo ör að maður nær honum ekki í samhengi.
-Eða maðurinn sem gengur eins og örg mörgæs. Og maður hefði aldrei haldið að hann væri í alvöru fyndinn.
-Eða yfirmaðurinn sem lætur hausa litlra lamba fjúka, á meðan hún spjallar hress í símann.
-Eða bílstjórinn sem andar svo ótrúlega hátt.
-Eða stelpan sem muldrar svo að ég hlæ vandræðalega af öllu sem hún segir, eða ég held að hún segi.
-Eða konan sem heldur með litlum brjóstum og styður baráttuna með því að nota ekki brjóstahaldara.
-Eða stelpan sem ég virðist aldrei getað skilið. Sem finnst svo gaman að grandskoða allar persónurnar en getur með engu móti greint hvaða persóna hún sjálf sé.
Þótt ég hafi gaman af þessu öllu, þá fá bölsýnismenn eitthvað til að kjamsa á. Vinnan er ekki á allan hátt skemmtileg.
-Ég hef ekki gaman af köngulóm sem hænast að blaðberum.
-Ég hef ekki gaman að konunni í fyrirtækinu sem horfir alltaf á mig eins og ég sé að fara að klína slími í hárið á henni og segir aldrei góðan daginn.
-Ég hef ekki gaman að verknum sem lætur stundum á sér kræla í brotnu ristinni eftir mikið labb.
-Ég hef ekki gaman að helvítis blaðinu.
Nú hafið þið á síðustu augnablikum fengið smjörþefinn af póstútburði. Hann jafnast þó ekki á við sjálfboðastarf í Zimbabwe.
Æ, finnst ykkur ekki stundum eins og þið gætuð gert svo miklu meira?
|