miðvikudagur, júlí 27, 2005

Kjúklingasúpa
Nú finnst mér þetta orðið ansi gott. Vika af veikindum, eintómt rugl. Þessi vika hefur einkennst af eirðarleisi og óþægilegri líðan. Svo held ég að þetta sé persónulegt met í veikindum. Ég man ekki eftir að hafa verið veik heima svona lengi í einu áður. Og þetta góða veður sem hefur leikið við gluggann minn og tælt mig út að leika. Megi það fara suður með sjó. Samt ekki, því ég hef ákveðið að nú sé nóg komið, nú hætti ég að vera veik og drullist í vinnuna á morgun. Ég er líka komin á sýklalyf, falleg rauð og gul sýklalyf, sem ætla að hjálpa mér. Svo er líka Innipúkinn um helgina og þá þarf maður að vera vel á sig kominn, svaka dagskrá!
Ég er geislavirk núna. Mér finnst það svolítið skrýtin tilfinning og ég get svarið að ég finn stundum fyrir geislavirkninni. Svona rétt eins og þegar ég borða mikinn lakkrís og fæ verk í hjartað. Oh, af hverju var ég að minnast á lakkrís?
Ég fór semsagt í beinaskanna í dag og þar var sprautað í mig skuggaefni sem er geislavirkt. En það á að fara út á sólarhring svo þetta er ekkert meidjör díl.
Það er alveg ótrúlegt hvað það að finna ekki bragð tekur skemmtunina úr því að borða mat. Nota bene, ég fékk mér ekki brownies og ekki ís því ég sá ekki fram á að finna bragð af því. Og þetta er tvennt af mínum uppáhöldum...
Krappedídkrapp. Blogg er ekkert sniðugt alltaf.
Þessvegna segi ég þetta gott núna.
|

föstudagur, júlí 22, 2005

múmínsnáðatebolli
Ég hélt alltaf að ég væri þeim kosti gædd að verða sjaldan veik. Jú, ég svosem fæ ekki hita og hef ekki gubbað í sirka 9 ár. Í grunnskóla varð ég eiginlega ekki veik. Ef ég fór ekki í skólann vegna veikinda var það því að ég var annaðhvort langþreytt eða svona dofin með vont kvef. Það voru mín veikindi á meðan aðrir fengu flensur og mér fannst ég eiga jafn mikinn rétt og aðrir á því að fá veikindafrí.
Síðan ég byrjaði í menntaskóla breyttist veikindasaga mín. Nú eru veikindi mín orðin mjög asnalega tímasett og aðeins reglulegri (ca. 3svar í vetur) en áður. Upp á síðkastið hef ég t.d. aðeins orðið veik þegar pabbi og mamma eru í útlöndum, oftast þegar þau eru búin að vera soldið lengi í burtu. Raunin er sú núna plús það að ég valdi fokking besta veður sumarsins til að verða veik! Ég er með verstu hálsbólgu í manna minnum ( þarf þó ekki að segja mikið, er gleymin) og hellings kvefuð. Í gær fór ég ekki í vinnuna og var eins og róni heima, óskiljanleg, borðandi súkkulaði og hangandi. Sólin skein eins og henni væri borgað fyrir það en ég gat ekki hugsað mér að sitja í sólinni og láta skína á hausinn á mér á meðan þessar jarðboranir áttu sér stað þar. Reyndar keypti mamma ís handa mér og ég horfði á Life Aquatic svo þetta var ekki alslæmt. Um kvöldið voru tónleikar hjá Emelíönu Torrini sem ég átti miða á en ég gat ekki hugsað mér að sitja heima svo panódíl, hálsbrjóstsykur, vatn og út fór ég.
Við vorum í helv 25 mínútur að leita að stæði sem olli því að við misstum af Þóri spila. Mér tókst á ótrúlegan hátt að ráða við skapið á mér á meðan á þessari bílastæðisskönnun stóð þrátt fyrir slæma líðan og gullið tækifæri til að missa sig. En það hjálpar víst ekki, svo hví leggja það á sig?
Tónleikarnir voru hinsvegar yndislegir. Emilíana vann hug og hjarta mitt, þótt hún ætti það fyrir. Hún hefur verið í uppáhaldi hjá mér síðan ég var lítil og ég man eftir mér lítilli hnátu á geisladiskamarkaði í Perlunni eyða klinki í disk með henni. Þrátt fyrir það hef ég aldrei séð hana syngja né vera. Þessvegna var gleðin ennþá meiri og hún stóð sig ótrúlega vel. Loftið var aðeins betra en á Antony og fólk var aðeins tillitsamara. Sem betur fer, annars veit ég ekki hvar ég væri núna!
Alveg jafn veik og fyrir dröslaðist ég svo heim og þrælaði mér til vinnu í morgun. Það er asnalegt að geta eiginlega ekki talað. En það er ágætt að eiga vinkonu eins og Þóru sem býður manni alltaf í hádegismat ef maður vill.
En núna ætla ég að klára háls-væna teið mitt og heimsækja hana Elísabetu sem tókst á glæsilegan hátt að verða veik eins og ég. En ekki samt eins. Við ætlum að grilla pizzu og blanda saman veikjunum okkar. Hví ekki að deila?
|

laugardagur, júlí 16, 2005

Um lífsins lystisemdir
Hér sit ég með þig í fanginu, súpa á trópí og er ein vakandi fyrir allar aldir. Ég gat ekki sofið svo ég yfirgaf rúmið, fékk mér morgunkorn og ákvað að kíkja á þig. Þú varst með eitthvað vesen eins og svo oft áður, en ekki næstum jafn erfið og stóra frænka þín. Þið hafið hvorugar leyft mér að ferðast um heiminn og skemmta mér í marga daga. Ég hinsvegar fæ mínu fram ef ég vil það nógu mikið og svo varð ég líka að sýna ykkur hver bakaði brauðin í þessu húsi.Þú tölva.
Ég er svekkt útí sjálfa mig fyrir að vakna svona snemma á laugardagsmorgni. Það er ekki ég sem geri það. Ég er farin að hræðast að ég sé að breytast svo hratt að ég þekki mig ekki lengur. Sá helgidagur hefur varla litið dagsins ljós að ég hafi getað sofið út og ekki gert það. Og nú veit ég ekkert hvað ég á að gera við sjálfa mig, ef ég vitna í the White Stripes, nema það að ég er ekki einmanna. Það er eitthvað uppí rúminu mínu, ennþá sofandi. Um hádegisbil er þó stefnan tekin í bæinn þar sem ég ætla að sameinast velliðnum kynsystrum mínum, Elísabetu og Sigrúnu og er planið feitur bröns.
Indælt.
Þar sem ég hef tjáð mig svo mikið um ákveðinn listamann á bloggi þessu, verð ég bara að loka hringnum og segja ykkur frá tónleikunum.
Antony & the Johnsons, mánudaginn 11.júlí, Nasa. Dýrustu tónleikar sem ég hef farið á, algjörlega þess virði. Hudson Wayne hituðu upp. Hef aldrei heyrt svo mikið sem einn hljóm frá þeim, en þau voru svöl. Frekar low-down og falleg tónlist og söngvarinn var með heillandi rödd. Það var þó óþarfa kliður í salnum. Þegar fólk er búið að borga 4500 kall á tónleika þá hlýtur það að sjá hve sniðugt það sé að halda kjafti og tala seinna- þegar það er ókeypis! Fólk sat á gólfinu og var rólegt en skömmu eftir að þau kláruðu fór fólk að þyrpast að sviðinu. Troðningurinn jókst og hitastigið hækkaði. Ég skaust á klósettið og tróð næstum niður djásn þjóðarinnar í leiðinni, en svo var þrautin þyngri að komast til baka til systur minnar og co. Þau höfðu plantað sér frekar nálægt sviðinu og það var eiginlega ekki hægt að troðast þangað- svo mikil var mannmergðin. Á endanum tókst það og þá byrjaði gufan. Loks þegar tónleikarnir byrjuðu og Antony hafði sest við píanóið, hafði það afstillst, svo mikill var hitinn. Þetta var líka fáránlegt- næstum engin loftræsting og mér fannst nóg komið þegar ég fór að finna svitadropa leka eftir bakinu. En nóg um það. Antony var ótrúlegur, hljómsveitin frábær og upplifunin himnesk- svona þegar maður náði að gleyma kvölum líkamans. Taktarnir hjá honum eru ótrúlegir. Svo lítur hann út eins og ofvaxin strákur í stelpuleik. Sætt. Hljómsveitin var samansett af píanói, selló, fiðlu, harmóníku, gítar og bassa. Og yfirnáttúrulega flotta söngröddin hans sómaði sér mjög vel í þessum félagsskap. Hrollurinn kom svo í lokinn, afar veikburða- einungis útaf asnalegu loftslagi- þegar lagið Hope there's someone ómaði um salinn. Þá gat ég gengið út glöð í hjarta. Án efa í hóp topptónleika sem ég hef sótt og munu seint gleymast.
Aumingja þið sem eruð að lesa þetta og fóruð ekki- sem er uþb 95%þeirra sem lesa!
Ég er búin að búa ein í 3 hæða húsi í hátt í mánuð samtals. Það venst, enda er ég með blásanseraða fákinn Sigfús til einkanota.
Ég elska heimskt afgreiðslufólk sem lætur mann borga of lítið. Ég er farin að lenda það títt í svotilgerðu fólki að ég er farin að halda að ég sé heppin.
En ég ætla að fara að lemja hausnum í vegg. Það held ég sé það besta í stöðunni.
P.S. Þetta blogg hafði ekkert með lífsins lystisemdir að gera. Það bara kom óvart.
-Hildur
|

laugardagur, júlí 02, 2005

Malt og salthnetur
Já, aldurinn hellist yfir mann. Í gær var sautjánda árið mitt háfnað. Ég er sem sagt sautján og hálfs +1 dagur. Nú er voðalega móðins að halda uppá hálfsársafmælin sín, allavega í minni fjölskyldu. Mínu afmæli var fagnað með heljarinnar útitónleikum í Hljómskálagarðinum. Það var mikið gaman,mikið fólk og mikið íslenskt veður. Við (ég+Bjarni+Ingibjörg) drógum okkur þó í hlé þegar Stuðmenn birtust og laumuðumst inná kaffihús í leit að heitum kakóbolla til þess að verma þá staði sem hljóðbylgjurnar höfðu ekki náð að hita. Það var indælt. En kostaði okkur því miður það að sjá Singapore Sling. Nett vonbrigði, þar sem söngvari SS var kosinn mesti töffari svæðisins af okkur. Annars voru Kimono og Without Gravity frábær, svo ég tali nú ekki um Hjálma - þá fékk maður sko að hreyfa hnén! Og hrúgan bánsaði eins og brjálæðingar. Mikið af heldra fólki að dilla sér svo ákaft svo ungviðið varð að hafa sig allt við til þess að vera kúl.
Já, þetta var hresst. Áfram Afríka.
Af tónleikum annars er það að segja að ég er staðráðin í að fara á Innipúkann, enda ekki annað hægt þegar Blonde Redhead og Raveonettes ætla að leiða hesta sína saman. Og rjóminn af hinni íslensku rokkflóru. Ég er innipúki og er stolt af því.
Svo varð ég ansi kát þegar ég sá að hún Emilíana ætlar að syngja smá fyrir okkur. Það er nefnilega ansi langt síðan hún lét eitthvað sjá sig hérna. Hún hefur verið í miklu uppáhaldi hjá mér frá svona...'98 get ég fullyrt. Og það eru nú fáir tónlistarmenn sem hafa náð að heilla mig í svo langan tíma. Því, ég segi og skrifa að svona 90% af því sem ég hlustaði á upp að 15 ára aldri er rusl sem ég get ekki hlustað á lengur nema bara til að fá góðan slatta af nostalgíu með smá aulahrolli fylgjandi.
Ég tók líka óvenju slæm tímabil inná milli- ég meina S.O.A.P!
Já, svo er Antony and the Johnsons ennþá voðalega heitir tónleikar í mínum augum, en það er fjandi dýrt og engum langar að fara nema mér. Ó mig auma.
Annars er lífið bara svona upp og niður. Ég fékk minn skammt af leiðinlegheitum fyrir sumarið alltsaman í þessari viku og ég vona að nú sé þetta ekkert nema uppá við. Það er merkilegt stundum, hvernig hlutir sem virka litlir, eru kveikir af svo miklu meira en maður gerir sér grein fyrir. Og hvernig tilfinningar sem maður heldur að maður skilji og þekki eru bara toppurinn á ísjakanum, undirniðri eru miklu stærri hugsanir sem krauma. Hugsanir sem eru svo umfangsmiklar að maður vogar sér varla að hugsa út í . En það þýðir ekki að stinga sér of djúpt.
Ég held að það sé ein besta uppskriftin af geðveiki, að hugsa of mikið og djúpt út í vandamál. Þá uppsker maður allsvakalega keðju vandamála og áður en maður veit af er maður kominn með heiminn á herðar sér. Og þá er erfiðast að hoppa á upphafsreitinn.
Sumir hlutir eru nefnilega þess eðlis, að því meira sem þú hugsar um það, því ruglaðari verður maður. Og það er mjög létt að tileinka sér þetta í öllum hugsunarhætti.
Ég hef áhuga á hugarfari, hversu furðulega sem það hljómar.
Ég var að fatta það.
Sumum finnst örugglega skondið að Pollýanan hún ég sé að skrifa þetta
- en Pollýönur þrífsast nefnilega best þegar annað fólk er í kring.
Í kvöld hætti ég samt að hugsa um allt það sem hefur hringsnúist í hausnum á mér síðustu daga og átti frábært kvöld með pabba og mömmu.
Við fórum á Voksne Mennesker, það voru 5 í salnum. Mjög kósý.
Við fórum út að borða og ég fékk svo sterkan mat að varirnar á mér titruðu.
Við fórum á kaffihús þar sem ég fékk mér kaffisúpu(nýyrðið hans pabba yfir latté á súfistanum) og róaði munnin eftir áreynslu kvöldmatarins og dáðist af Jónsa Sigurrósakalli.
Á þessum aldri finnur maður sig oft sekan um að vanmeta það hve góðar stundir maður getur átt í faðmi fjölskyldunnnar.
Svo hlusta ég núna á Jeff Buckley, þess vegna er ég kannski sentimental.
Og eftir tæpar 5 mínútur er brottför upp í Breiðholt.
Það var gott að spjalla.
|