miðvikudagur, mars 30, 2005

Rassgat í bala

Þetta fannst Kanaríköllunum voða sniðug setning. Það var líka fyndið að hlusta á þá reyna að segja þetta. Og já, ég er sumsé komin heim. Kom heim klukkan 03:30 í nótt og er því ekki ferskasta manneskja í heiminum akkúrat núna. En hálft kíló af djúpum og þrír kleinuhringir hjálpuðu til. Ég var svo heppin að lenda við hliðina á 6 ára gæja í flugvélinni sem frussaði og ég þurfti að halda honum uppi félagsskap hálfa leiðina heim. Aldrei hef ég hitt barn sem er jafn tregur pússlari. Annars nenni ég ekki að gera neitt núna, ég er húðuð eirðarleysi og ætla því bara að leyfa ykkur að lesa í tómið.
|

þriðjudagur, mars 15, 2005

Jææææææææja,

Helgin var virkilega feit. Lokahelgi, Morfís og almennt brjálæði! Nánari útlistingar fara ekki fram hér enda á ég að vera annað hvort sofandi núna eða pakkandi niður. Allt er búið að vera tryllt síðustu daga og ég trúi því ekki alveg að það sé Kanarí á morgun. En svona er þetta víst- ég á eftir að verða mjög sæl eftir nokkra klukkutíma, komin í hitan og rólegheitin. Planið er bara að njóta alls, æfa, sólbrenna ekki of mikið og ekkert vesen. En hafiðið það gott hér heima, ég nenniggi meir.

BLESS ÍSLAND!
|

þriðjudagur, mars 08, 2005

Everyone's a V.I.P to someone
Ég er svo létt á fæti. Mér finnst eins og þungu fargi sé af mér létt. Samt hefur ekkert breyst í raunveruleikanum, en það mun gerast. Ég get ekki beðið. Það er alveg undarlegt hvað maður getur blekkt sjálfan sig án þess að gera sér grein fyrir því og jafnvel leiða hugann að því!
Ég fór á Hljómalind, hið lífræna kaffihús áðan og það var voðalega notalegt alltsaman. Fékk besta súkkulaði sem ég hef fengið í langan tíma sem ég svolgraði niður með hinni yndisfögru tónlist sem prýddi Amelie á sínum tíma.
Það er svo ótrúlega mikið að gera að ég er hrædd um að áður en ég viti af verði ég komin uppí flugvél á leiðinni til Kanarí. En eftir því sem ég best veit á það að gerast á þriðjudaginn. En maður veit aldrei. Allavega nóg að gera þangað til, Páskaloki í fullum undirbúning og ekki er verið að spara heimavinnuna í skólanum.
Titillinn vísar í lokalagið af disknum Thunder, Lightning, Strike sem hljómsveitin The GO! Team á heiðurinn af. Þessi hljómsveit er náttúrulega ekki annað en snilld og síðan ég fékk mína ólöglegu kópíu af þessum disk(sem ég er ekki stolt af) hef ég hlustað merkilega mikið á þetta sull. Þetta er í orðsins fyllstu merkingu sull, þar sem ég get ómögulega greint undir hvaða flokka maður ætti að setja þessa tónlist. Enda finnst mér ekki að svo þurfi alltaf að gera. Ég hef gaman af samblandi. En það er samt ágætis skemmtun að lesa um svona stíla hér
En ég vil óska The Dyers innilega til hamingju með áframgangið á Músíktilraunum sem voru í kvöld og ég komst svo óheppilega ekki á...
Kærleikur til allra!
|

þriðjudagur, mars 01, 2005

Ferskleiki
Í dag var ég afar hress þrátt fyrir ójarðneska skítafýlu sem lá yfir Reykjavíkurborg í dag. Hinsvegar skein sól í heiði og fólk var létt á sér. Í lífsleikni fórum við í landaleik. Hópurinn minn var ríka og fína og heppna Frakkland og hin löndin grátbáðu okkur um viðskipti. Við höfðum vit fyrir okkur og komum út í feitum plús. Reyndar urðu USA ríkust en ég meina hey, við vorum þó fáguð og gáfum meirað segja fátæku löndunum eins og Brasilíu skæri á lokamínútunni.
Helgin var ansi skemmtileg. Fór í skreytóferðina, þrátt fyrir að hafa ekki skreytt einn einasta fersentimetra. En ég hafði gert Loka sem vann mér inn rétt til þess að fara. Svo buðu tveir herramenn mér líka með sér og hvernig getur lítil 3.bekkjarstelpa annað en tekið svo góðu tilboði frá sér eldri og einnig myndarlegum mönnum? Já nei, það var ekki hægt! En gamanið var semsagt haldið á Snorrastöðum sem er einhversstaðar uppí Borgarfirði ef mér skjátlast ekki. Heiti potturinn var vel notaður. Þar fór meiraðsegja fram stjörnuskoðun, brandarar, töfrabrögð, lífsreynslusögur og bara almennt skvett. Margur maðurinn var vel hress og góður á því og það var ansi hlægilegt oft á tíðum. Svo átti fólk til að þenja söngraddir sínar óheyrilega mikið með óskalögum á iPodnum. Mér fannst það líka mjög fyndið. Og svo sprangaði fólk líka allmikið hálfnakið um, ekkert endilega að pæla í því. Mikið hlegið og mikið gaman. Svo var vaknað nokkuð snemma daginn eftir og "þrifið"(ég veit ekki hversu mikið það kallast að þrífa að skúra borðin með sama stöffi og maður skúraði gólfið með- nota bene án sápu!) En það lúkkaði vel og þá brunuðum við heim, um hádegi á sunnudegi. Þreytan sagði til sín þann dag og undirbúningur undir próf var ekki efstur á listanum. Þetta varð að svona skemmtilegu dilemma, alltaf þegar ég fór að pæla í því að læra þá gat ég það ómögulega því að ég fattaði hvað ég kynni lítið og ég vildi ekki líta í bækurnar og sjá að ég kynni ekki neitt því að þá myndi ég eitthvað missa mig þannig að ég frestaði þessu eins lengi og mikið og ég gat. Góð taktík Hildur, já!
Ég komst ískyggilega nálægt því að drepa lifandi veru áðan þegar ég dúndraði hnénu í sturtuhurðina. Vo-hont! Ég er náttúrulega svo mikill hrakfallabálkur að fólk er farið að búast við hverju sem er af mér. Það er líka svo skemmtilegt hvað ég næ að meiða mig alltaf á ótrúlega kjánalegan hátt. Við skulum nú ekki fara nánar útí þá sálma, enda dansa ég til að gleyma.
Foreldrafríi sjálfhverfu tíminn með einkaafnotkun af bláum bíl, frumlegri eldamennsku, spillingu og ósiðlegheitum er að líða undir lok. Það er svosem ágætt, þau eru fínt fólk.
En ég er líka fínt fólk sem ætlar að vera heiðarlegt og læra núna. Fíntfínt.
The Irish Keep Gate Crashing- The Thrills..........klárlega lag dagsins!
|