miðvikudagur, október 27, 2004

Þar sem ég stóð áðan eins og frosið spaghettístrá, bíðandi eftir strætó í Árbænum, bölvandi helvítis ökklanum sem ég drap í dag, varð mér hugsað til þess hve gott væri á leiðinlegu vetrarkvöldi sem þessu að geta hugsað til einhvers ....

Hoppaði svo upp í strætó eftir nokkurra mínútna bið (fleiri mínútur hefðu fryst mig til dauða) þar sem merkilega hress strætóbílstjóri hafði effemm957 aðeins of hátt stillt. Allaveg hæfði það ekki mínu skapi. Sat ofan á höndunum mínum sem var pakkað inn í tvö pör af vettlingum. Samt kalt. Ég er farin að halda það alvarlega að hendurnar mínar séu dauðar. Þær bara eru alltaf svo ísjökulkaldar að ég trúi því ekki að það renni blóð í gegnum þessi apparöt. Þakkaði svo guði fyrir að eiga heima í 20sekúndna fjarlægð frá stoppistöð við helstu strætóæð borgarinnar þegar ég rölti hölt og köld heim, með ofbirtu í augunum. Já, umferðarljósin á horninu hjá mér eru meira að segja þekkt af fólki í Keflavík, sem "..björtu umferðarljósin á morgnanna".

Já, það var jarðfræðiferð í dag hjá helmingi 3.bekkjar MR. Við keyrðum útum allt og ég vissi í mesta lagi tvisvar hvar við vorum stödd. Aðallega því að ég átti erfitt með að halda vöku(hvaða Vöku!?) og einbeitingu á sama tíma plús að horfa út og kunna námsefnið. Lærði þessvegna ekkert á þessari ferð nema að maður á ekki að fara í kapp upp gjall-fjall. Það getur endað með snúnum ökkla. Áts.
Annars var þetta ágæt ferð. Það var gaman í þykjistu slagsmálunum og alvarlegum "flipp" umræðum og mér fannst fyndið þegar einhver voða sniðugur missti debetkortið sitt ofan í Peningagjá á Þingvöllum....

En ég ætla að fara að sofa, eða frjósa úr kulda .

|

laugardagur, október 23, 2004

Jiii! ég er á hraðri niðurleið sem bloggari. Niðurleiðir eru vondar leiðir þannig að ég er að hugsa um að taka hliðarskref inn á hjáleið. Því að það er svo mikið að gera að ég held að ég tolli ekki á uppleiðinni.

Í gær í fyrsta tíma var efnafræði, efnafræði ekki vera skemmtileg. En ég gera skemmtilegt. Það vildi svo skemmtilega til að sætisfélagi minn á hægri hönd, hún Gulla, var með ljóðabók eftir Saffó (Sapho) sem var semsagt svona líka sniðugt ljóðskáld á x árum fyrir krist! Ég missti mig alveg í þessu og las bara alla bókina, og gott betur, skrifaði niður -best of-. Mér tókst því á einkar skemmtilegan hátt að líta ekki einu sinni upp á töfluna sem aumingja Guðbjartur stóð sveittur við, að reyna að troða einhverri vitleysu á vondan hátt, fullum af samlíkingum(sem eru reyndar grátbroslegar) inn í hausinn á pirruðum samnemendum mínum. Ég hinsvegar sveif sallarólega milli ljóða, og leyfði fögrum ljóðlínum frk. Saffó að næra hugann. Og hugsaði fallega.
Tókst svo að útbreiða boðskapnum eftir tímann þegar ég sýndi nokkrum bekkjarsystrum mínum ljóðin. Tóku þær nokkrar upp á því að skrifa eftir blaðinu sem ég skrifaði eftir bókinni. Það var skondið. Allt einu fullt af fólki með niðurskrifuð ljóð á fimmföldum ellilífeyrisaldri.
Kannski ég leyfi bara nokkrum línum að fljóta með.....
Bendi samt á að orðunum virðist oft vera raðað furðulega, en það má að sjálfsögðu skýra með því að þetta eru þýðingar úr grísku!

Þetta finnst mér fallegt, góð samlíking-

55. It is clear now:

Neither honey nor
the honey bee is
to be mine again.


Þetta finnst mér tilviljun-eða ekki!

60. You may forget but

Let me tell you
this: someone in
some future time
will think of us

Ég meina, hún er ennþá fræg!


Og að lokum eitt sem er ansi fyndið-

32.Bridesmaids' carol 2

Virginity O
my virginity!

Were will you
go when I lose
you?Já, ljóðahorni dagsins lokið.
Vonandi höfðuð þið eins gaman að og ég.

|

sunnudagur, október 17, 2004

Veit ekki hvar ég á að byrja. Er í vetrarfríi þessa dagana, sem er mögnuð uppfinning. Fimmtudagurinn var eðalmegamagnaður. Árshátíðin, fortíð hennar og framtíð var allt magnað, já klárlega einn af skemmtilegri fimmtudögum/nóttum sem ég hef upplifað. Ég nenni ómögulega, alls ekki og engann veginn að blogga um það þannig að áhugasamir geta sett sig í samband við mig. Svo var það bekkjarpartí í gær, singstar og læti. Þar átti sér stað einvígi milli söngvara Royal Flush, Inga og mín fyrir Parent. Leikar fóru 2-0 fyrir Parent og var keppt í I believe in a thing called love og Pretty woman. Það mátti varla tæpara standa í pretty woman og var keppni æsispennandi. En semsagt, mikið fjör og mikið gaman.
Nú á sér stað Tourette samtal milli mín og Elísabetar. Það einkennist af kappslokki og þykjistu rifrildum. Það er upplífgandi.
Æji kött ðe krapp...ég er í fríi og ég get ekki bloggað.
Veriði sæl

|

miðvikudagur, október 13, 2004

Ég verð að segja ykkur dálítið merkilegt. Ekki láta ykkur bregða þótt þetta sé ómerkilegt eða vekji ekki upp áhuga ykkar, en ég snarstansaði þegar ég kom auga á þetta. Ég hélt ég væri kominn í annan heim, eitthvað sem þetta hefur aldrei á mínum ja..13 árum í hverfinu gerst og ég hélt að fyrr myndi ég deyja en að þetta yrði að veruleika. Hafði ég oft velt mér upp úr því hvernig í ósköpunum þetta gerðist aldrei og hvað ylli. Þeir sem búa í 105 eða ganga oft þar um gætu hafa séð þetta undur sem ég er að tala um. Hinir hinsvegar gætu sennilega ekki mögulega skilið þetta en það má á það reyna. Sennilega eiga allir það þó sameiginlegt að vera annaðhvort gífurlega forvitnir núna eða þá vera orðnir drullupirraðir og eru að hugsa þann möguleika að loka blogginu mínu og kíkja aldrei á það meir. Nú get ég hinsvegar viðurkennt fyrir þeim sem ekki vita að ég hef afskaplega gaman af því að draga fólk á asnaeyrum hvað ritmál eða sögur varðar. Fátt þykir mér skemmtilegra en að láta frásögnina stigmagna forvitnina þannig að skjótt fari að krauma í reiði og óþolinmæði og brjálæðið gjósi á endanum með miklum látum, beint í glottandi fés mitt.
Svo á endanum þegar ég hef leyst frá skjóðunni missa áheyrendur mínir oft á tíðum vitið og öskra og æpa, vegna þess hve óspennandi sagan/frásögnin var í samanburði við það sem fyrir fór. Góð tilfinning.

En ég skal láta undan, gufustrókarnir sem koma frá ykkur eru ekki heillandi.
Málið er að hjá Miklatúni/Klambratúni(dæmi hver fyrir sig) þá eru undirgöng undir Miklubrautina. Í gegnum árin hafa þau ætíð verið gegnumsýrð af veggjakroti sem hefur verið í öllum myndum. Alltaf þegar ég geng í gegnum þau veiti ég listinni (sem veggirnir eru á góðæristímum) athygli og jafnvel aðdáun. Ég veit ekki hve oft hefur verið reynt að mála veggina en aldrei hefur það varað svo lengi að ég hafi náð að sjá það, því að svo virðist sem veggjakrotarar hverfisins viti alveg hvað klukkan slær í þeim efnunum. Satt best að segja hef ég aldrei séð þau hvít, þar til núna í síðustu viku. Á leið heim úr skóla í djúpum þönkum trítla ég niður tröppurnar og rek í rogastans. Viti menn! Er það satt sem ég sé? Við blasir auðn. Allir veggir, handrið, ljós, rimlar, loft- allt hvítt. Ég stóð þarna í smá stund alein og týnd í óþekkjanlegum undirgöngum og nýjum heim. Þögnin ríkti og ég beið þess eiginlega bara að sjá krotið spretta fram á veggjunum. En allt kom fyrir ekkert. Engir hömlulausir veggjakrotarar komu í öngum sínum með brúsana á lofti eins og ég bjóst helst við. Gekk brátt heim á leið og gleymdi þessu.
En merkilegt nokk, tveim dögum seinna lá leið mín á ný í gegnum göngin. Og hvað haldið þið? Nei, ekkert að sjá, og ekki einusinni punktur. Mér var skapi næst að taka upp penna úr fórum mínum og krota punkt, jafnvel kommu eða strik ef ég hefði viljað vera ennþá grófari. En ég lét það kyrrt liggja. Nú tel ég mér bara trú um það að veggjakrotarar Hlíðahverfis séu dauðir úr öllum æðum eða málningin sé jafnvel sjálfþekjanleg. Að ekki sé hægt að krota. Jafnvel að maður þurfi að kalla til Vestbæskt krotfólk. Þetta er spurning....sem seint verður svarað.

Þessi færsla var í boði sterks kaffis hjá systur minni.
|

sunnudagur, október 10, 2004

Helgin var skemmtileg. Á föstudag var það MR-ví og jújú mikið fjör og mikið gaman. Að sjálfsögðu tókum við verslingana í karphúsið í hljómskálagarðinum. Mér fannst einkar fyndið að komast að því að ótrúlega margir verslingar eru bara með mínus húmor fyrir svona versló skotum. Ég var til dæmis að tjá mig afar frjálslega um það hvað verslóstelpurnar væru lélegir ræðarar( uu..segir maður það ekki um svona fólk sem róir á bátum!?) og þá stóðu verslódömur fyrir framan mig og sneru sér allar við og drápu mig með augnarráðinu, rétt áður en þær fóru að bæta á meikið. Ógsla fyndið. Hinsvegar fór ræðukeppnin ekki eins vel og maður vildi. MRingar unnu ekki og ég ætla ekki einu sinni að byrja að tala um það. Púnktur. En svo var samt gleði og gaman á eftir...
Svo í gær var háklassa kökuboð í fágaða bekknum mínum. Að sjálfsögðu lögðu allir sitt af mörkum og í mínu og Elísabetar tilfelli var það 4l léttmjólk. Þú heldur náttúrulega ekki kökuboð án þess að hafa mjólk!! Þetta var semsagt hin prýðisgóða skemmtun. Svo skemmtilega vildi til að ég lenti í öðru kökuboði í dag líka! Magnað. Og, já svo ennþá sniðugra vill til að Vilborg er eimmitt í hljómsveit sem heitir Kaka! Og vorum við svo ekki að tala um það eimmitt í háfleyga kökuboðinu hvernig allt í heiminum tengdist á einhvern hátt? jújú, eða bingó eins og maður segir...

Í gær fékk ég komment frá strætóbílstjóra sem mér þótti afskaplega fyndið.
Ég og Elí.. vorum semsagt á leiðinni upp í Garðabæ í kökenboðen. Við vorum alveg að fara að koma að strætóskýlóinu(ég get í alvörunni ekki ekki sagt þetta orð!) sem við ætluðum að taka strætó í. Keyrði vagninn okkar þá bara ekki á fullri ferð í átt að skýlóinu og ég að sjálfsögðu spretti úr spori, strætóinn keyrði framhjá en merkilegt nokk, hægði á sér. Við hlupum á eftir alveg þar til við náðum honum og hann var næstum því stopp. Þá hoppuðum við inn. Ég þakkaði bílstjóranum vel fyrir, enda oftast sem þeir keyra framhjá í fússi. Þá svaraði hann " Jájá stelpur mínar, þið voruð nú samt heldur þungar á ykkur!" Vitandi ákveðnar staðreyndir um sjálfa mig hló ég nú bara í fésið á honum og sagði "ha neinei, finnst þér það? ...." svo hentumst við í sætin. Nennti ekki að fara að rugla í bílstjóranum og segja honum sannleikann.
Annars gekk ekkert voðala vel að komast upp í Gbæ. Áður en við vissum af vorum við komin upp í Hafnarfjörð. Þar vorum við síðan strandaglópar í hinni kjánalegu verslunarmiðstöð Firði þar til að hin góðhjörtuðu systkin Inga og Bjarni, ásamt Vöku sóttu okkur. Vænt fólk.
En nú er þetta bara komið nóg, við skulum ekkert vera að gáfumannast neitt núna. Það er ekki nógu gott veður fyrir það...

|

þriðjudagur, október 05, 2004

Þar kom að því. Ég hef tekið ákveðið að setjast að í nýju landi.
Þetta er ekki skemmtileg ákvörðun en ég neyðist víst til að taka hana. Ég efast um að ég endist þarna lengur en í viku en ég ætla að reyna. Landið heitir Agaland. Þar er kalt og byggðin er strjál. Í þessu landi lærir fólk alltaf heima, það hengur ekki í tölvunni, hvað þá á emmessenn. Það gleymir sér ekki í óhóflegum dagdraumum eða hugsunum þegar það ætti að vera að gera eitthvað annað. Það fylgist með í tímum, skipuleggur sig og borðar ekki svona mikið kex. Það eyðir ekki peningum í vitleysu og skuldar aldrei neinum. Það tekur til í herberginu sínu svo að lifandi verur fyrir utan það sjálft drepist ekki þar inni. Það man hluti sem það á að muna og er duglegt að vakna. Þetta fólk hefur þolinmæði og er raunsætt.
Fólkið þarna er samt ekki eins og Hildur þannig að sambúðin verður kannski stirð. Kannski væri ráðlagt að taka förunaut með sér...hef fólk í huga.
|

sunnudagur, október 03, 2004

Fór aldrei þessu vant að pæla í dag. Ég er alveg að gera mér grein fyrir því hve skólinn sem ég var í var ótrúlega misheppnaður og hvað skólinn sem ég er í er það ekki. Það er svona 200% skemmtilegara í MR. Aumingja litlu börn. En við skulum ekki gleyma okkur í vorkunn(, f0rkunn, miskunn og einkunn.)
Helgin var skemmtileg...ég fór í villt samkvæmi sem annað fólk vill kalla reif. Það var gaman. Mikið gaman. Svo löbbuðum við Elísabet heim í gegnum miðbæinn og veltum fyrir okkur fólkinu. Það var kynlegt. Enduðum á devitos þar sem Elí nartaði í pizzu á meðan ég sofnaði næstum á höndina á mér.
Ég held að hóteldjobbið í sumar hafi skemmt smá part af heilanum á mér. Allavega get ég ekki útskýrt af hverju ég fór alltíeinu í gær að skipta um og búa um rúmið mitt af því að mig langaði það! Það er ekki heilbrigt. Ég veit ekki hvað kom yfir mig og þetta gæti þessvegna gerst aftur, þannig að ef ég tek einhvern tíman upp á að búa um rúm einhversstaðar þar sem ég er stödd, þá ekki vera hrædd.
Ahh..ég er að leiðast út í hina mestu vitleysu. Ég vil ekki fara að læra en ég hef svosem ekkert betra að gera nema hanga og skrifa eitthvað asnalegt á bloggið mitt. Kannski er það bara betra.
Ég klessti næstum því á í dag í æfingarakstri. Það var nokkuð hressandi, fékk blóðið til að streyma.
En...það er gaman að spurja fólk, þessvegna ætla ég að taka Bjarna mér til fyrirmyndar og spyrja....

Hverjir voru síðustu tónleikar sem þú fórst á og ætlaru á einhverja í bráð?

Og eins og aðrir, ætlast ég til að barasta allir í heiminum svari!|