fimmtudagur, júlí 29, 2004

Helgin var skemmtileg. Ég og Elísabet mynduðum bræðralag einstæðra afkvæma nema að það er systralag. Við elduðum mat saman,  átum mat saman, flæktumst út um bæinn, duttum í strætó, hlógum eins og vitleysingar og fengum skrýtin augnarráð.  Aðlögunarhæfni okkar skein í gegn þessa helgina og sjálfstæðið jókst. Sigrún litla fékk þó að vera smá memm því að hún var svo brjóstumkennanleg, nei nei hún var það ekki. Hún var það bara í mínus. Ég veit ekki einu sinni akkurru ég sagði þetta.
En í þessu félst bræðra/systralagið okkar ef einhver vill vera með, en það er hinsvegar ekki hægt. 

Já, það kannski ber þess merki að ég bloggi lítið að helgarbloggið komi á miðvikudagskvöldi. En só.

Ég lenti í því fyir u.þ.b. ári að fá ímeil frá einhverri Heiðdísi. Mér vitanlega þekki ég enga slíka og fannst málið undarlegt. Hún var þó bara að senda brandara þannig að ég gerði ekkert í málinu, hélt að hún myndi fatta það næst. En það gerði hún ekki. Ég hélt áfram að fá inn á milli brandara og kómíska ímeila frá henni. Málið er að þetta hafa nær undantekningarlaust verið frekar fyndin meil þannig að ég hef ekki ennþá fengið mig til að leiðrétta villuna. Hún má alveg senda mér þetta eins lengi og hún fattar þetta ekki. Það hefur tekið hana allavega ár.
Læt á eftir einn nýjan flakka með...

Já, ég fór í húsdýra og fjölskyldugarðinn í dag, eftir margra ára hlé. Mér til mikillar mæðu var ég orðin of stór í þetta flest allt en ég fékk þó að láta ljós mitt skína, fáein andartök, í klessubátunum, sjóræningjakastalanum og auðvitað flekanum góða.  Já, þetta var allt og sumt, en ég gat þó reynt að upplifa stemmninguna með því að horfa á systursyni mína tvo skemmta sér(maður hljómar svo gamall þegar maður er móðursystir!). Hinsvegar finnst mér þessi garður nú frekar sorglegur. Fyrir þá sem ekki vita er nú farið að rukka í flestöll tækin, og ekki nóg með það, heldur kostar hver miði 170 krónur! *hneyksl* Og ekki finnst mér eins og skemmtanagildið í tækjunum sé í samræmi við það því flest tækin eru fyrir svona 7ára og yngri.  Og ekki borga þau brúsann, neinei, þau bara heimta meira meira og foreldrarnir ráðþrota, hlaupa og kaupa miða. Jájá, þennan blákalda sannleika fékk maður beint í æð.  Svo kostar líka inn í garðinn. Já, þetta er ótrúlegt. Já, og það er ótrúlegt að ég nenni að hneykslast á þessu.

Elskuleg frænka mín hefur margoft bent mér á það upp á síðkastið að maður eigi að hringja í ókunnugt fólk. Já ég svona sé til.

en hér kemur glensið sem ég lofaði....
  A crowded Virgin flight was cancelled after Virgin's 767s had been
withdrawn from service. A single attendant was re-booking a long
line of inconvenienced travelers. Suddenly an angry passenger
pushed his way to the desk. He slapped his ticket down on the
counter and said "I HAVE to be on this flight and it HAS to be FIRST CLASS!". The attendant replied, "I'm sorry sir. I'll be happy to try to help you, but I've got to help these people first, and I'm
sure we'll be able to work something out." The passenger was
unimpressed. He asked loudly, so that the passengers behind him
could hear, "DO YOU HAVE ANY IDEA WHO I AM?"
Without hesitating, the attendant smiled and grabbed her public address microphone: "May I have your attention please, may I have your attention please," she began - her voice clearly heard throughout the terminal.
"We have a passenger here at Gate 14 WHO DOES NOT KNOW WHO HE IS.
If anyone can help him find his identity, please come to Gate 14."

 With the folks behind him in line laughing hysterically, the man glared at the Virgin attendant, gritted his teeth and said, "F... You!"
Without flinching, she smiled and said, "I'm sorry, sir, but you'll
have to get in line for that too."

Jájá, þetta ku vera ágætis brandari að mínu mati.

En ég er hætt í bili, jafnvel hérumbili....

|

föstudagur, júlí 23, 2004

Ég lenti á skemmtilegum strætóbílstjóra í dag. Sjaldnast að það gerist. Hann gaf mér frítt í strætó án þess að ég bæði um það.  Setti bara höndina fyrir boxið og brosti. Hann hefur séð persónutöfra mína í hyllingum þar sem ég beið eftir strætisvagninum og ákveðið að svona manneskja þyrfti ekki að borga, ég bara veit það. Mér finnst að aðrir strætóbílstjórar ættu að taka hann sér til fyrirmyndar, gefa mér alltaf ókeypis ferð. Þá væri heimurinn betri staður að lifa á.


|

miðvikudagur, júlí 21, 2004

Hver hefur ekki lent í því að eiga framundan gífurlega skemmtilegt og gott kvöld? Allt er eins og best verður á kosið og skapið er gott? En hvað ef manni langar nú að hafa það  leiðinlegt og vera pirraður? Þá er ég með svarið fyrir ykkur! Lærði af eigin reynslu í gær góða leið til að framkalla áðurnefnd áhrif. Áhugasamir geta auðveldlega framkvæmt þetta með dágóðum skammt af óheppni og smáhundi. Hérna koma einfaldar leiðbeiningar:

Fyrst skuluð þér vera á íþróttaæfingu í tvo tíma. Taka vel á og vera mátulega löt/latur og þreytt/ur eftir á.  Næst skuluð þér fá far heim þar sem foreldrar yður eru í veislu í annari sýslu.  Þar næst skuluð þér koma heim og þar mun smáhundurinn taka á móti yður æstur að vanda og krefjast þess að þér takið hann út í göngutúr. Þér skuluð gera það með glöðu geði enda þurið þér einnig að kaupa yður kvöldmat. Þér gangið heldur rösklega og létt í spori enda er veðrið fallegt og þér eruð í góðu skapi. Þér gangið inn í litla verslun og veljið yður 1944 rétt fyrir sjálfstæða Íslendinga sem yður líst vel á. Þar næst borgið þér með bros á vör og gangið heim á leið með smáhundinn í bandi eins og áður fyrr. Þegar þér komið heim þá skuluð þér gera yður grein fyrir því að þér gleymduð húslyklunum. Þér finnið fyrir eilítilli óþolinmæði og finnið hvernig góða skapið dofnar. Þér gangið inn í bakgarðinn og komið að svalarhurðunum læstum. Þér látið þó ekki deigan síga og bankið upp á hjá leigjandanum væna í kjallaranum og athugið hvort þér megið labba í gegn. Leigjandinn tekur yður vel og hleypir yður inn. Þér gangið í gegn en sveimérþá, eru ekki millidyrnar læstar! Þér reynið að taka þessu með jafnaðargeði og kinkið kolli þegar stúlkan býðst til að reyna að opna dyrnar með hníf. Ekkert gengur og þér eruð ennþá læst úti. Það vill svo skemmtilega til að þér gleymduð einnig farsíma yðar inni og fáið því að hringja hjá stúlkunni. Foreldrar yðar eru í veislu eins og áður sagði, langt í burtu og geta því með engu móti komið strax. Þér munið ekki símann hjá systur yðar og hringið því í faðir yðar og biðjið hann að koma skilaboðunum áfram. Hann virðist misskilja eitthvað, enda sennilega undir áhrifum áfengis og þetta fer allt í vaskinn, þér óafvitandi. Þér bíðið vongóð/ur fyrir utan með smáhundinn sem veiðir flugur sér til skemmtunar. Fer að síga á kvöldið og kuldinn læðist inn milli mergs og beins. Þér finnið fyrir svengd en þar sem þér keyptuð yður 1944 matarrétt sem er kaldur og  þér hafið engin hnífapör við hendina, er þér með öllu ómögulegt að snæða.  Tíminn líður og vongóðu hugsanirnar um systur sem kemur og bjargar málinu fjara út. Eftir því sem stundirnar líða er yður orðið svo kalt og smáhundurinn er farinn að skjálfa svo þér ákveðið að hlaupa einn hring kringum Klambratún til að halda á yður hita, því að sjálfsögðu viljið þér ekki fara í heimsókn neitt með lítinn smáhund í eftirdragi, þar sem fólk virðist oftar en ekki vera mjög óáhugasamt um að fá slík dýr í heimahús. Eftir að hafa hlaupið þennan hring líður yður aðeins betur og takið ykkur stöðu inn í bakgarði og ætlið að reyna að dotta eilítið til að drepa tímann. Eftir líklega hálftíma hangs þar kemur móðir yðar út í garð og bregður heldur í brún af því að sjá yður. Hún hefur þá verið heima í 10 mínótur án þess að vita af yður í garðinum og þér tókuð ei eftir henni. Hún hleypir yður inn og þá er klukkan að verða tíu. Þér voruð semsagt læst úti í rúman einn og hálfan klukkutíma. Þér misstuð af því sjónvarpsefni sem þér ætluðuð að horfa á, þér eruð svöng/svangur, köld/kaldur og hafið hlotið verulegan sálarskaða af.  Móðir yðar reynir að hughreysta yður og hitar matinn fyrir yður. Þér verður illt í maganum af matnum, enda ekki búin/nn að borða verulega lengi. Eftir snæðinginn leggist yður niður og framkvæmið eina ljósa punkt kvöldsins. Þér horfið á skemmtilegt brot úr góðri mynd á vídeógeisladisk, þar til móðir yðar krefst þess að fá sjónvarpið undir einhverja lélega framhaldsmynd í ríkissjónvarpinu.
Fullkomið.
 
|

fimmtudagur, júlí 15, 2004

Tækifæris bækur eru fyndinn hlutur. Þetta er svona dót sem þú getur keypt ef þú veist ekkert hvað þú átt að gefa einhverjum. Það eru til ógrynnin af svona en ég held að ég hafi aðeins enst að lesa eina. Hún var nokkuð sniðug. Hún hét "Mér hefur orðið það ljóst..." og þarna miðlar ónefnt fólk á öllum aldri af visku sem það hefur lært á lífsleiðinni. Fyndin svona komment eins og hjá fimm ára stráknum...."Mér er orðið það ljóst hvernig maður á að halda á dýrum án þess að drepa þau." Já, þessu skaut bara upp í kollinum á mér í morgun. Það eru samt svona sirka 5 ár síðan ég las þessa bók. Ég gæti sennilega samið heila svona bók fyrir mín 16 og hálf ár hér á jörðinni. Ljósið fyrir daginn í dag myndi hljóma svona: "Mér hefur orðið það ljóst að það er fátt betra en að gera ekki neitt og liggja heima í náttfötum og geta horft á allt beatles anthology-ið" En það eru alls rúmir 11 tímar fyrir þá sem ekki vita. Ég er nú samt að skipta þessu niður á daga....það er ekki hollt að horfa of mikið á sömu manneskjurnar, ég held það nú. Annars eru nokkrir sem vildu víst horfa á þetta með mér, en ég tek ekki tillit til fólks í vinnu. Enda er vinna vitleysa á sumrin, já fyrir utan peningana kannski...en það er heldur ekki gott að eiga of mikla peninga!(þeir sem fundu sig í síðustu fullyrðingu mega hafa samband og ég skal með fúsum vilja gefa upp bankanr.)(Þess má einnig geta að það getur varla einhver hafað fundið sig í þessu, því að þetta var lygi)(En sum ir lifa alla sína ævi í lygi)(Já ég samdi eimmitt lag um það fyrr á tíðum!)
Smitandi þessir svigar...
Já annars er það að frétta af mínum vinnumálum að eftir að út spurðist að ég væri atvinnulaus rigndi yfir mig atvinnutilboðum og ég átti úr vöndu að velja. Ákvað ég loks að taka að mér nokkrar helgar í Borgarnesi, í Shell-skálanum mikla, við afgreiðslu ruslfæðis og annars uppbyggjandi efnis. Þar mun ég dvelja næstu helgi svo endilega takið krók upp í Shell...aldrei að vita hverju Hildur lumar á þar..neii...!
En já, skrifið nú eitthvað fallegt í kommentunum fólk, þá skal ég skrifa eitthvað fallegt á móti.
* * * * * * * * * * * * * * * * * * * * * * * *
Hildur....sem lifir alls ekki tilbreytingarsnauðu lífi!


|

mánudagur, júlí 12, 2004

...eftir að hafa hlustað kurteislega á misáhugaverðar frásagnir og kinkað kolli er röðin komin að henni. Hún lítur snöggt í kringum sig, feimnislega, um leið og hún fullvissar sjálfa sig um að þetta sé hið rétta í stöðunni. Loks stendur hún upp.
"Sæl, ég heiti Hildur"
"Halló Hildur"
"Já...ég á víst við vandamál að stríða. Ég er óvirkur bloggari og hef verið það síðustu vikur"
Hún heyrir andköf í kringum sig.
"Það er kannski erfitt að trúa þessu og mér þótti mjög erfitt að viðurkenna þetta fyrir sjálfri mér."
Hún dregur djúpt inn andann, lítur aftur á fólkið sem situr í hringnum. Flestir horfa skilningsríkum augum á hana og hún tekur til máls á ný.
"Svo virðist sem að ég hafi einnig fengið vott af afsökunarsýki í þokkabót. Vinir og vandamenn hafa þurft að þola margar mismunandi afsakanir á síðustu dögum og má þar nefna utanlandsferð, vinnuþrælkun, íþróttakeppnir og hvaðeina. Þetta er komið á alvarlegt stig en ég hef fengið mikinn stuðning frá vinum sem hafa hvatt mig til að leita mér aðstoðar. Þetta er samt í rauninni í fyrsta skipti sem ég viðurkenni þetta opinberlega."
Fólkið brosir til stúlkunnar og dáist að framtakssemi hennar. Stúlkan segir frá í meiri smáatriðum og fólkið hlustar af athygli. Eftir að hún hefur lokið máli sínu sest hún aftur niður. Sessunautar hennar klappa henni á öxlina og hvísla uppbyggjandi orðum í eyru hennar. Þungu fargi er af henni létt og hún finnur hvernig vellíðan streymir um líkama hennar. Hún er frjáls...
|