fimmtudagur, júní 24, 2004

Æ, þið verðið að fyrirgefa. Það er bara allt bandbrjálað í kringum mig þessa dagana. Ég veit ekki hvað er málið en það virðist allt
vera að springa á öllum vígstöðum. Líkaminn að gefa undan en hausinn á fullu. Það er neflilega dáldið merkilegt í vændum. Nokkuð
sem er búið að vera draumur minn lengi. Þið bíðið spennt, en ég er þögul sem gröfin, allavega í nokkrar vikur. Þar til meira kemur
í ljós. Það er ekkert gefið í þesssum heimi,því geng ég að vísu.
Ég sagði upp vinnunni á hótelinu um daginn. Skref mín hafa verið öllu léttari síðan og munnvikin vísað ögn meira upp á við. Þetta er allt að koma og sumarið er nú rétt að byrja. Hljómsveitin hefur stigið upp úr sumardvala sínum og er nú öll að komast til leiks á ný. Það eykur enn á gleðina.
Ég er að yfirgefa landið á sunnudaginn er ég mun halda til Svíjaríkis í leit að fornum fjendum á brautinni, sól, hita og gleði. Þetta er norrænt sumar.
Já....þessi dæmigerða sumarbloggstífla er að gera vart við sig, en við látum hana ekki á okkur fá.
Ég sá auglýsingu aftan á erlendu glansmúsíktímariti um að Lost In Translation væri að koma út á DVD. Það rifjaðist upp fyrir mér hversu mikið ég elska þessa mynd. Hún gengur næstum öll út á að ná stemmningu...sem er eitthvað svo yndislegt. Það gerist nákvæmlega ekkert í henni. Air tónar svífa yfir stórhýsum og japönsk menningin heillar. Það er ekki spurning, þessa mynd verð ég að eignast og helst fara til Japan líka. Og helst líta út eins og Scarlett Johanson. Þá er þetta skothelt.
Þessa setningu skrifaði ég með sólgleraugu.
Á sautjánda júní komst ég að því að Bang Gang voru klárlega hápunktur þess kvölds. Annars finnst mér seyjtándinn vera að missa stemmninguna. Þetta er meira farið að snúast um bæinn fullan af fullum heimskum krökkum eða jafnvel ímyndunarfullum, svona uppá lúkkið. Skemmtilegt, eins og hjá stelpunni sem ég sá sem var við það að deyja að leita að vinkonum sínum sem voru týndar. En gaman fyrir hana, hún hefur örugglega bara dottið niður sekúndum síðar og ekki neinn til að bera hana heim. Já, eftirsóknarvert....
En ég er hérumbil að sofna, það er ekki gott að blogga sofandi, rétt eins og að spila á gítar sofandi. Eins og ég gerði í gær. Lagsmíðar mínar urðu heldur draumkenndar held ég, rétt áður en ég vaknaði með gítarinn í fanginu eftir að hafa raulað mig í svefn.
Já...
|

fimmtudagur, júní 17, 2004

Upp er hann runninn, bjartur og fagur, 17.júní 2004....
Hér sit ég í móttökunni á Hótel Skjaldbreið,nagandi peru og kvelst. Það er ljótt að láta fólk vinna á þessum hátíðisdegi. Það er líka leiðinlegt að horfa út um gluggann því það vill svo skemmtilega til að Skjaldbreið er staðsett á Laugarveginum. Trúið mér, það er ekki eftirsóknarvert að húka hér og horfa á glaðleg andlit barna og fullorðinna sem spóka sig í góðviðrinu , í fríi! Reyndar er heví næs að fá að vera í móttökunni, en gamanið mun ekki vara lengi þar sem ég er bara að passa þetta í hálftíma:/....en það þýðir..engin herbergisþrif í hálftíma! Klöppum fyrir því. Sennilega er þetta bara mesta bölsýni í mér því að ég losna hérna kl 4(vonandi!) er búin að vinna yfirvinnu á hverjum degi síðan ég byrjaði, en ég trúi því að í dag eigi annað eftir að koma í ljós.
Annars er voða lítið að gerast þessa dagana. Bara vinna, æfing, sofa. Eða álíka, lítið spennandi. Um helgina er svo Evrópubikarinn á Laugardalsvellinum(já, eimmitt, þið ætlið öll að mæta!)þar sem Hildur er bara í Landssveitinni í 4x100! Ekki amalegt, ef ég klúðra engu:S smá stress í gangi. Svo verð ég skírð á föstudag,sem nýliði í Landsliðinu! Það verður..eh...fróðlegt!
meira seinna...þarf að fara
|

föstudagur, júní 11, 2004

Já, þá er maður sko kominn á fullt. Mót í gær, mót á morgun, vinna fyrir utan það og æfingar og skemmtanir og alltsaman. Fór í bæinn í gær og eyddi alveg tug þúsunda. Það er gaman. Fólk segir að ég sé með kaupæði, því að ég var að koma frá úglöndum þar sem ég keypti urmul af fötum og er að fara eftir tvær vikur aftur út og svo eyði ég ennþá meira í millitíðinni! Til hvers eru annars peningar? Jah, mér er svosem nett sama.
Ég skráði mig líka í skóla, Menntaskólann í Reykjavík. Ég er allavega ekki farin að sjá eftir því ennþá;) Eins og nokkrir aðillar virðast reyna að láta mig gera. En ég hef rétt fyrir mér og það þýðir ekkert að rökræða hvort MR eða MH sé betri eða skemmtilegri skóli. Þeir eru það hvorugur. Góðir og slæmir á sinn hátt. Ég mat kosti þeirra beggja og komst að góðri niðurstöðu.
Þar hafið þið það! Tilvonandi MRingur ef stjórnin þar er í góðu skapi og horfir ekki á seint-in mín;) ne...það getur varla verið það alvarlegt.
OG svo er það bara franska, gífurlega sjarmerandi mál. Ég vil bara vona að það smiti út frá sér... Ég kann allavega að segja kjúklingur á frönsku, ha? getiði það ha? já maður byggir á góðum grunni sko
Já, þá er ég búin með Háteigsskóla. Hann var kvaddur með athöfn á miðvikudaginn. Blendnar tilfinningar. Gífurleg gleði, en samt óvissa og smá söknuður. Aðallega þá til samnemenda. Vond kaka. Tilfinningasnauð skemmtiatriði. Stór skammtur af ræðum. Fínar einkunnir. Penir nemendur. Stoltir foreldrar. já....svona útskrift í hnotskurn.
Ég fékk bók frá danska menntamálaráðuneytinu og bréf með á dönsku. Það skondna var að ég sem á að vera afburðarnemandi í dönsku rétt svo skildi annaðhvort orð í bréfinu,þetta var eitthvað rosa fágað mál og sjaldgæf orð, en hey! þetta var hvortsemer orðabók þannig að þetta reddast við tækifæri...
En...þið hafið það vonandi betra en ég, vitleysingurinn.
Farin að sofa því að ég þarf að mæta kl 7:30...sorglegt, ég veit.
|

mánudagur, júní 07, 2004

Skemmtileg helgi. Svona ef maður horfir framhjá trylltri vinnu og þessháttar þá var hún nokkuð góð. Það er náttúrulega bara vitleysa að vinna að minnsta kosti 8 tíma á dag og hátt upp í 10 á erfiðisdögum við hótelþrif. En maður er vitlaus, enda fær maður peninga fyrir alla vitleysuna. Það er gaman. Þannig að þetta er minnsta sumarFRÍ sem ég hef farið í. En það verður bara að hafa það. Svo má maður líka hafa kveikt á sjónvörpunum í herbergjunum þannig að Skjár einn og Popptíví hafa oft á tíðum stytt manni stundir, alveg þangað til að Nylon birtist. Ó gvuð! Það er bara hreint út sagt ekkert jákvætt við þessa hörmung! Ég er eiginlega farin að hálfvorkenna þessum stelpum, en nei, þá man ég að þær MÆTTU Í PRUFU fyrir þessa vitleysu. Já, sumt fólk er bara óútskýranlegt. Nenni ekki að tjá mig um svona hluti, þeir ættu að segja sig sjálfir.(Í alvöru! hverjir hlusta á þetta??)
En þessi myndbandamaraþon eiga líka sínar góðu stundir T.d. er Skjár einn frekar ofvirkur í The Yeah Yeah Yeahs sem er er náttúrulega klassi. Sá Maps alveg 4 sinnum í dag-aldrei er góð vísa of oft kveðin. Svo er ég líka búin að detta inn á mjög hugljúft lag sem - Somewhere only we know með Keane sem ég frétti í gær að væru tilvonandi Íslandsvinir! Skemmtileg tilviljun, þrátt fyrir að maður eigi sjaldan að dæma hljómsveitir eftir einu lagi þá lofar þessi góðu. Já svo eru líka the Stills og the Shins að koma á klakann um leið. Allt á hinni blessuðu Arwaiwes, sem ég vona að verði betur skipulögð heldur en síðast þar sem pakki undir lögaldri var bannað að koma á 'etta alltsaman! Hnuss.
En það fyndna er að upp á síðkastið hefur fólk verið að mæla með báðum þessum sveitum(the stills & the shins) við mig en nöfnin eru svo sláandi lík að ég get með engu móti greint þær í sundur. Hef heyrt eitt lag með annarri þeirra...sem er gott en hvernig á ég að fatta muninn! Já, fólkið mitt, þetta er erfitt líf.

Laugardagurinn var svei mér skemmtilegur. Ég þurfti reyndar að vinna í þessu fína sumarveðri frá 8-5. Eftir það hitti ég stöllur mínar þær Elísabetu og Sigrúnu sem voru á röltinu og við gengum niður Laugarveginn í sólskinsskapi í leit að ísbúð. Það var örugglega fáránlega fyndið að sjá okkur. Ég var í drusluvinnufötunum mínum sem samanstóðu þá af svörtum kvartbuxum, gömlum druslulegum íþróttaskóm hvítum stuttermabol og svo var ég í eldrauðum jakka. Eitthvað ljótt sportí stöff. Ekki pent. Sigrún var hinsvegar meiri rokkari í grænum velvet underground bol og með stærstu flugmannasólgleraugu í heimi(sem Elísabet stal þó fljótt) en Elísabet var daman í hópnum, í pilsi, kínaskóm og rauðri kápu. Já, þetta fannst mér einkar fyndið. Við pössuðum engann vegin við hvoraðra, enda fengum við mörg fyndin augnaráð. Eftir að hafa keypt okkur okur-ís og sleikt hann á rónabekk á Austurvelli fengum við gullna flugu í hausinn. Að aflita hárið á Sigrúnu. Þá hófst leitin stranga að opnu apóteki. Það var erfiðara en að segja það! Enduðum upp í Lágmúla og það vildi svo skemmtilega til að það byrjaði að rigna á leiðinni. Þá varð þetta ennþá fyndnara því daman tók upp regnhlíf, rokkarinn var ennþá á stuttermabol og sportí gíkið var á hjóli sem skvetti út um allt.
Eftir kvöldmat og tilheyrandi var snúið heim til Sigrúnar þar sem hin mikla aflitun átti að eiga sér stað. Sigrún var frekar stressuð því að misheppnað aflitað hár er ekki fallegt. Ég og Elísabet vorum hinsvegar sallarólegar. Hvað gæti mistekist? Hoppum nú aðeins yfir...eftir slatta bið og læti var komið að því að þvo litinn úr. Viti menn, hárið varð PISSUGULT! Svipurinn á Sigrúnu þegar hún leit í spegilinn var óborganlegur!!! Stuðningurinn lak af mér og Elísabetu þar sem við sprungum úr hlátri. Og gátum ekki hætt. Sigrúnu var ekki skemmt. Hún var hálfvolandi með rosa fýlusvip og starði í spegilinn milli þess sem hún horfði hatursfullu augnarráði á okkur. Til að toppa þetta birtist svo fjölskyldan í dyragættinni og fóru þau ekki bara að hlægja líka! Sigrún var að springa og ég og Elísabet gátum bara ekki hætt. Komment kvöldsins var þó þegar mamma Sigrúnar sagði að hún væri eins og Austur-Evrópsk súludansmær. Ég sem var nýbúin að hakka í mig bránís af mikilli áfergju, var gjörsamlega að deyja. Langt síðan ég hef hlegið svona mikið! En eftir nógu stóran skammt af niðurlægingu út árið fyrir Sigrúnu byrjuðu hughreystingarnar og við sögðum að þetta yrði allt öðruvísi þegar þetta þornaði. Sem það varð. Eftir massa hárþurrkun með tveimur túrbó hárþurrkum varð þetta skolli fínt. Sigrún var ekki beint í skýjunum en við vorum bara sáttar með árangurinn fyrir hennar hönd. Allavega ekki pissugult;) Svo fóru stúlkurnar í sinn hvorn gleðskapinn en ég gerðist gífurlega félagslynd og fór ein heim að sofa! Hey, það er ógeðslega erfitt að vakna 7:10 og hjóla í vinnið! Viljiði skipta?
En nú er þessi færsla orðin svo helvíti löng að allir eru löngu hættir að lesa þannig að ég er bara að tala við sjálfa mig. Eða kannski skrifa við sjálfa mig?
En...ég ætla í appelsínu.
Adios
|

fimmtudagur, júní 03, 2004

Ferðin var sól, ferðin var heit. Ferðin var skemmtileg, ferðin var peningaeyðsla og ferðin var flipp. Allt eins og ég spáði. Allt er líka gott sem endar "vel"

Ég táraðist í dag uppúr þurru. Var að hjóla heim úr vinnuni í gullfallegu veðri og hlustaði Jeff Buckley. Svo þegar lagið Halleluja kom gerðist eitthvað. Það var bara eitthvað sem snerti mig djúpt á þessu augnabliki. Ég var í einhverri almennri geðshræringu yfir öllu og þúsund hugsannir flugu í gegnum hugann. Ég stoppaði meira að segja hjólið og starði í smá stund. Skrýtið móment. Sjaldgæft að svona gerist, en það fær mann til að hugsa á öðruvísi hátt.
|